Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20160905 - 20160911, vika 36

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 450 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Lítið Skaftárhlaup hófst þann 7. og náði hámarki tveimur dögum síðar. Smærri skjálftahrinur urðu við Húsmúla á Hellisheiði, norðaustur af Gjögurtá, við Tungnafellsjökul og innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,5 og var hann innan Kötluöskjunnar.

Suðurland

Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitunnar við Húsmúla á Hellisheiði. Flestir urðu í smáskjálftahrinu sem hófst laust fyrir klukkan 15 þann 8. september og stóð fram yfir miðnætti. Nokkrir skjálftar urðu í nágrenni Nesjavallavirkjunar. Stærsti skjálftinn varð 11. september kl. 22:37 og var 2,2 að stærð, aðrir voru mun minni. Um tugur smáskjálfta mældist á öðrum stöðum á Hengilssvæðinu og nokkrir í Hjallahverfi og Þrengslum. Yfir 20 smáskjálftar mældust á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendinu. Tveir skjálftar voru staðsettir við Heklu þann 11. september. Sá fyrri varð kl. 08:58 við norðurenda fjallsins og hinn tveimur mínútum síðar um þremur kílómetrum norðar. Þeir voru báðir um eitt stig að stærð.

Reykjanesskagi

Tæpur tugur skjálfta mældist í nágrenni Kleifarvatns, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust vestar á Reykjanesskaganum og sömuleiðis á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Um 60 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Á annan tug skjálfta mældist um 11 kílómetra norðaustur af Grímsey. Stærsti skjálftinn varð 11. september, 2,4 að stærð. Um 20 skjálftar mældust um sjö kílómetrum norðaustan við Gjögurtá, flestir í smáhrinu sem stóð með hléum frá því að um kl. 02 þann 10. september og fram yfir kl. 18 sama dag. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð. Aðrir skjálftar dreifðust í tíma og rúmi.

Hálendið

Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust við Bárðarbungu, flestir undir norðan- og austanverðri öskjunni. Stærsti skjálftinn varð kl. 22:09 þann 8. september, 2,1 að stærð. Um tugur smáskjálfta varð undir bergganginum norðan Dyngjujökuls. Að kvöldi 7. september hófst skjálftahrina við norðanverðan Tungnafellsjökul. Hún stóð fram undir hádegi næsta dags. Um 40 skjálftar mældust í hrinunni. Stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð en flestir voru um og undir einu stigi. Tæpleg 10 smáskjálftar urðu í nágrenni Grímsvatna, flestir fyrri part vikunnar. Fáeinir litlir skjálftar mældust á Lokahrygg. Lítið Skaftárhlaup, sennilega úr vestari Skaftárkatli, hófst í eftirmiðdaginn 7. september og náði hámarki seinni partinn þann 9. Það mun taka ána nokkra daga að ná fyrri vatnshæð.

Hátt í 50 jarðskjálftar mældust á svæðinu norðan við Vatnajökul. Á annan tug skjálfta mældist við austanvert Öskjuvatn, stærsti 1,5 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust norður af Herðubreið, stærsti 2,2 að stærð. Um tugur djúpra skjálfta mældist á Dyngjufjallahálsi norðaustan Öskjuvatns. Aðrir skjálftar dreifðust um svæðið. Einn skjálfti var staðsettur undir Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli. Hann var rúmt stig.

Mýrdalsjökull

Hátt í 80 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af um 50 innan Kötluöskjunnar. Virknin innan öskjunnar var aðallega á tveimur stöðum, í sunnarverðri öskjunni og við austanverðan öskjubarminn. Smáhrina hófst klukkan 08:58 þann 7. september í nágrenni sigkatla 11 og 12 við austurjaðar Kötluöskjunnar með skjálfta sem var 3,5 að stærð. Þetta var stærsti skjálfti í jöklinum í vikunni og jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Rúmur tugur eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið. Upp úr hádegi þann 11. september hófst önnur skjálftahrina sunnar í öskjunni, skammt norður af sigkatli nr. 16, og stóð hún fram eftir degi. Tveir skjálftar voru stærri en þrjú stig. Sá fyrri varð kl. 15:57, 3,0 að stærð og sá síðari kl. 16:12, 3,3 að stærð. Hátt í 20 skjálftar mældust í þessari hrinu. Allir skjálftarnir voru grunnir. Um tugur skjálfta dreifðist um norðanverða Kötluöskjuna og um 20 urðu undir vestanverðum Mýrdalsjökli, stærsti rúm tvö stig. Nokkrir litlir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt