| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20161003 - 20161009, vika 40

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Tæplega 300 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,8 að stærð og var í Bárðarbungu þann 5. október. Þrír skjálftar yfir 3 stigum mældust til viðbótar og voru þeir allir í Mýrdalsjökli þann 6. október. Sá stærsti var 3,4 að stærð en hinir mældust 3,2 og 3,1 að stærð. Um 30 skjálftar voru staðsettir við Bárðarbungu, rúmlega 70 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli og tveir við Heklu.
Suðurland
Tæplega 30 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni, allir undir tveimur stigum. Flestir skjálftanna voru bundnir við sprungur Suðurlandsundirlendis en nokkrir skjálftar mældust á Hengilssvæðinu við Húsmúla og Nesjavelli.
Reykjanesskagi
Tæplega 30 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesi. Stærsti skjálftinn af þeim var 2,3 að stærð. Mest var virknin við Fagradalsfjall austan Grindavíkur og í nágrenni Krýsuvíkur en um 10 skjálftar mældust á hvorum stað. Tæplega 10 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, allir undir tveimur stigum.
Norðurland
Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust á Norðurlandi í vikunni, flestir þeirra á Grímseyjarmisgenginu. Um 25 skjálftar mældust rétt austan við Grímsey og var sá stærsti 2,1 að stærð. Um 25 skjálftar mældust í Öxarfirði, nokkrir á Skjálfanda og nokkrir norður af Eyjafirði. Einnig mældust nokkrir smáskjálftar við Kröflu og Þeistareyki. Stærsti skjálftinn á Norðurlandi var á Skjálfandaflóa þann 4. október og var 2,4 stig að stærð.
Hálendið
Rúmlega 40 skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli í vikunni. Stærsti skjálftinn var í Bárðarbungu þann 5. október kl. 08:22 og var 3,8 að stærð. Hann var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Einnig var skjálfti af stærð 3,0 í Bárðarbungu kl. 08:29. Um 30 skjálftar voru staðsettir undir Bárðarbungu og tæplega 10 í bergganginum. Tveir skjálftar voru staðsettir í Grímsvötnum og einn í Kverkfjöllum. Tveir skjálftar voru í Tungnafellsjökli.
Norðan Vatnajökuls voru staðsettir um 20 skjálftar. Um helmingur þeirra var við Öskju en hinir í nágrenni Herðubreiðar og Herðubreiðartagla.
Tveir skjálftar voru staðsettir í Heklu, báðir undir 1 að stærð. Einn skjálfti var staðsettur í Langjökli og einn skjálfti var á Torfajökulssvæðinu.
Mýrdalsjökull
Rúmlega 70 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli í vikunni. Sá stærsti var 3,4 að stærð og var kl. 23:08 þann 6. október. Tilkynning barst frá Vík um að skjálftinn hafi fundist þar. Tveir aðrir skjálftar yfir 3 stigum urðu sama dag í jöklinum, kl. 06:10 var skjálfti af stærð 3,2 og kl. 20:19 var skjálfti af stærð 3,1. Mesta virknin var einmitt þann 6. október en þá mældust um 40 skjálftar í jöklinum. Flestir skjálftanna voru innan Kötluöskjunnar á svipuðum slóðum og virknin hefur verið síðustu vikur, þ.e. rétt sunnan við miðja öskjuna.
Jarðvakt