Um 380 skjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku, um 100 skjálftum fleiri en vikuna á undan. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,1 að stærð. Hann var í Bárðarbungu þann 19. nóvember og hluti skjálftahrinu sem hófst þar að kvöldi 18. nóvember. Í þeirri hrinu mældust um 20 skjálftar, þar af voru sex skjálftar af stærðinni 3,0 eða meira. Nokkur virkni var á Grímseyjarbeltinu þar sem mældust tveir skjálftar yfir 3 stigum. Í Mýrdalsjökli mældust um 70 skjálftar, þar af mældist einn af stærð 3,0 þann 20. nóvember. Einnig mældist einn skjálfti af stærð 3,0 við Kleifarvatn þann 15. nóvember. Einn skjálfti mældist í Heklu í vikunni.
Suðurland
Tæplega 40 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni, flestir undir einu stigi. Flestir skjálftarnir dreifðust um brotabelti Suðurlands en nokkrir mældust í Þrengslunum. Einn skjálfti mældist í Heklu þann 16. nóvember.
Reykjanesskagi
Rúmlega 20 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesi ásamt þremur skjálftum á Reykjaneshrygg. Stærsti skjálftinn mældist 3,0 stig við Kleifarvatn þann 15. nóvember. Virknin var að mestu bundin við Langahrygg, Trölladyngju og Krýsuvík.
Norðurland
Rúmlega 110 skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku. Stærsti skjálftinn mældist 3,3 stig norðaustan Grímseyjar þann 14. nóvember en samdægurs kom skjálfti á sama stað upp á 3,2 stig. Virknin var einmitt mest á Grímseyjarbeltinu en einnig mældust margir skjálftar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Nokkrir skjálftar mældust við Þeistareyki og við Kröflu.
Hálendið
Rúmlega 70 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, þar af var rúmlega tugur skjálfta í bergganginum undir Dyngjujökli. Í Bárðarbungu mældust rúmlega 50 skjálftar. Stærsti skjálftinn var af stærð 4,0 þann 19. nóvember en hann var hluti skjálftahrinu sem varð í Bárðarbungu sem hófst að kvöldi 18. nóvember. Í þeirri hrinu mældust rúmlega 20 skjálftar, þar af voru sex skjálftar af stærðinni 3,0 eða meira. Nokkrir skjálftar mældust við Grímsvötn, nokkrir á Lokahrygg og þrír í nágrenni Kverkfjalla. Einn skjálfti mældist nærri Öræfajökli og einn við Tungnafellsjökul.
Norðan Vatnajökuls mældust tæplega 40 skjálftar. Þeir voru að mestu bundnir við Öskju, Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Einn skjálfti mældist í Geitlandsjökli í Langjökli. Á Torfajökulssvæðinu mældist um tugur skjálfta, flestir í kringum eitt stig.
Mýrdalsjökull
Um 70 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku. Flestir þeirra voru innan Kötluöskjunnar en einnig voru þónokkrir við Tungnakvíslarjökul. Stærsti skjálftinn mældist 3,0 að stærð þann 20. nóvember norðarlega í öskjunni.