| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20161128 - 20161204, vika 48

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 420 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands og er það svipaður fjöldi og mældist í síðustu viku og vikuna þar á undan. Virknin var með tiltölulega hefðbundnu sniði á flestum stöðum á landinu en nokkru meiri í Svínahrauni á Hellisheiði en oft áður. Undir Mýrdalsjökli mældust um 70 skjálftar svipað og vikuna á undan og stærsti skjálftinn þar mældist 2,7 stig. Jarðskjálfti af stærð 2,7 átti upptök um 5 km norðvestur af Húsavík þann 29. nóvember og fannst hann á Húsavík. Engar stærri hrinur urðu í vikunni og stærsti skjálftinn var 3,2 að stærð við Kolbeinsey úti fyrir Norðurlandi.
Suðurland
Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust í Svínahrauni (suðvestur af Húsmúla) á Hellisheiði dagana 30. nóvember til 2. desember. Mesta skjálftavirknin var 1. desember og stærsti skjálftinn varð þann dag kl. 13:36, 2,6 að stærð. Tveir aðrir voru stærri en tvö stig en flestir voru um og innan við 1 að stærð. Rúmlega 230 skjálftar hafa mælst á þessu svæði síðustu fimm árin og þar af um 130 það sem af er þessu ári. Tæplega 20 jarðskjálftar mældust á þekktum sprungum víðsvegar á Suðurlandsundirlendi.
Reykjanesskagi
Rólegt var á Reykjanesskaga og -hrygg.
Norðurland
Um 120 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Mesta virknin var í tveimur þyrpingum skammt norðaustur og austur af Grímsey. Tæplega 30 skjálftar voru staðsettir á svæði sem er um átta kílómetrum norðaustur af eyjunni og þar var stærsti skjálftinn 2,5. Syðri þyrpingin var á svæði um 10 kílómetrum austur af Grímsey. Þar voru um 50 jarðskjálftar staðsettir, flestir á tímabilinu frá miðri nótt og fram eftir degi þann 29. nóvember. Stærsti skjálftinn, 2,7 að stærð, varð 29. nóvember kl. 04:33.
Klukkan 19:50 þann 29. nóvember varð jarðskjálfti af stærð 2,7 rúma fimm kílómetra norðvestur af Húsavík. Nokkrir minni skjálftar fylgdu í kjölfarið. Nokkrar tilkynningar bárust um að skjálftinn hefði fundist á Húsavík.
Hálendið
Um 70 skjálftar mældust undir Vatnajökli, allir um og innan við tvö stig. Flestir skjálftanna urðu við Bárðarbungu og í bergganginum undir norðanverðum Dyngjujökli og á svæðinu framan við hann. Einnig urðu nokkrir djúpir skjálftar á svæði austan við Bárðarbungu en á því svæði mælast gjarnan skjálftar á meira dýpi en annars staðar í Vatnajökli.
Rúmlega 40 jarðskjálftar voru staðsettir á svæðinu norðan Vatnajökuls, þar af helmingurinn við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Nokkrir smáskjálftar urðu við Öskju. Skjálftarnir á þessu svæði voru einnig um og innan við tvö stig.
Tveir smáskjálftar mældust undir norðanverðum Geitlandsjökli og þrír á svæðinu upp af Eystri Hagafellsjökli. Stærsti skjálftinn á því svæði varð 28. nóvember kl. 23:14 og var hann 2,7 að stærð.
Mýrdalsjökull
Um 70 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, litlu færri en í síðustu viku. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar, einkum undir henni norðan- og austanverðri. Þar voru rúmlega 50 skjálftar staðsettir. Stærsti skjálftinn varð 29. nóvember og var hann 2,7 að stærð. Um tugur skjálfta mældist í vestanverðum jöklinum, stærsti 2,5 að stærð. Nokkrir smáskjálftar urðu á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt