Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20161219 - 20161225, vika 51

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 250 jarðskjálftar voru staðsettir með jarðskjálftamælakerfi Veðurstofunnar í vikunni. Stærsti skjálftinn mældist 3,5 stig þann 19.12. kl. 09:44 og átti hann upptök við Hjalteyri í Eyjafirði. Hann fannst mjög vel í Eyjafirði og víðar. Tveir skjálftar 3,1 og 3,0 af stærð mældust við suðausturbrún Bárðarbunguöskjunnar þann 20. desember. Um 30 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, sá stærsti 2,2 stig með upptök við Austmannsbungu.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu voru tæplega 15 skjálftar. Upptök flestra þeirra voru við Hveradali en einnig voru nokkrir skjálftar við Húsmúla og Hrómundartind. Stærsti skjálftinn var við Hveradali og mældist 1,4 stig.

Tæplega 20 skjálftar voru á Suðurlandsbrotabeltinu. Upptök þeirra voru í Ölfusi, í Flóanum, við Hestfjall og Skeiðin og í Landsveit. Stærstu skjálftarnir voru um 1,2 að stærð. Einn smáskjálfti 0,8 að stærð var í Heklu þann 23.12. kl. 14.53. Einnig voru stakir smáskjálftar í Vatnafjöllum og við Tindfjallajökul.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaganum mældust 7 skjálftar. Þar af voru 5 á Krýsuvíkursvæðinu og 2 við Fagradalsfjall. Stærsti skjálftinn var við Krýsuvík þann 20.12. kl. 16:58 og mældist hann 1,6 stig.

Norðurland

Tæplega 100 skjálftar mældust á Norðurlandi, bæði á landi og út í sjó. Þar af mældust um 55 skjálftar í skjálftahrinu við Hjalteyri í Eyjafirðii, aðallega þann 19.12. Upptök skjálftanna vorru á um 11-13 km dýpi. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 3,5 að stærð þann 19.12. kl. 09:44 og fannst hann mjög vel í Eyjafirði og víðar. Stærsti eftirskjálftnn mældist 1.8 stig þann sama dag kl. 09:49. Greining á upptakaeðli stærsta skjálftans sýnir að hann er á siggengi (svart/hvít kúla á korti). Líklega eru skjálftarnir á norðlægu misgengi með strik austan við norður og sem hallar til vesturs.
Tæplega 20 skálftar voru á Grímseyjar-sniðreksbeltinu, frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Flestir voru austan við Grímsey. Stærstu skjálftarnir þar voru um 1,7 stig. Einnig mældust fáeinir skjálftar í Fljótum, á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og á Flateyjarskaga (Gjögraskaga).
Smáskjálftar mældust einnig við Þeistareyki, Kröflu og við Bjarnarflag við Mývatn.

Hálendið

Undir og við Vatnajökul mældust rúmlega 50 jarðskjálftar. Flestir þeirra eða um 45 jarðskjálftar áttu upptök í Bárðarbungu. Stærstu skjálftarnir þar mældust 3,1 og 3,0 af stærð þann 20.12. kl. 09:36 og kl. 09:37 og voru þeir við suðausturbrún öskjunnar. Mjög fáir skjálftar voru í ganginum við norðurjaðar Dyngjujökuls. Stakir skjálftar voru við Eystri Skaftárketilinn, Grímsvötnum og við Kverkfjöll.

Um tugur skjálfta var við Öskju og mældist stærsti skjálftinn 2,3 stig þann 22.12. kl. 06:03. Um 8 skjálftar voru við Herðurbreið og Herðubreiðartögl. Skjálftarnir þar voru allir minni en 1,5 að stærð.

Fimm jarðskjálftar mældust norðan við Skjaldbreið. Fjórir þeirra voru um 8 km norður af henni en einn um 4 km norðan við hana. Stærstur þessara skjálfta mældist 2,3 að stærð þann 22.12. kl. 06:03 en hinir voru allir um 1,5 að stærð.

Mýrdalsjökull

Tæplega 30 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli. Þar af vou 26 undir Kötluöskjunni en 3 undir vesturhluta jökulsins. Flestir skjálftanna í Kötluöskjunni voru undir norðausturhluta hennar, við Austmannsbungu. Stærsti skjálftinn mældist 2,2 stig þann 20.12. kl. 04.09 og átti hann upptök við Austmannsbungu. Skjálftarnir undir vesturhlutanum voru allir undir 0,8 stigum.

Á Torfajökulssvæðinu mældust 4 jarðskjálftar. Þeir voru allir um eða undir einum að stærð.

Jarðvakt