Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170102 - 20170108, vika 01

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælaneti Veðurstofu Íslands í þessari fyrstu viku ársins. Mesta virknin var í Grafningi á Hengilssvæðinu. Þar sem skjálftahrina (með um 300 skjálftum) hófst um hádegi 4. janúar. Skjálfti af stærð 3,7 varð klukkan 11:56 og fannst hann á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og upp í Borgarbyggð. Hrinan stóð fram eftir kvöldi. Á fjórða tug skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, heldur færri en í síðustu viku. Þar var stærsti skjálftinn 3,5 í vestanverðri Kötluöskjunni, þann 7. janúar kl. 08:41.

Um 50 skjálftar urðu í Vatnajökli í vikunni sem er svipaður fjöldi og næstu tvær vikur á undan. Mesta virknin var að venju við Bárðarbungu þar sem rúmlega 40 skjálftar urðu. Stærsti skjálftinn varð í suðaustanverðri Bárðarbungu þann 4. janúar klukkan 18:39 og var hann 3,7 að stærð. Þann 8. janúar klukkan 11:37 varð síðan skjálfti 3,5 að stærð í öskjunni norðanverðri. Stærstu skjálftar vikunnar voru í Grafningi og Bárðarbungu, báðir 3,7 að stærð.

Suðurland

Jarðskjálftahrina hófst í Grafningi á Hengilssvæðinu klukkan 11:26 miðvikudaginn 4. janúar með skjálfta af stærð 2,8. Klukkan 11:56 varð annar af stærð 3,7. Sá fannst vel á Suðurlandi, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarbyggð. Um 300 skjálftar voru staðsettir í hrinunni sem stóð fram eftir kvöldi. Flestir skjálftarnir voru um og innan við eitt stig en nokkrir tvö stig og rúmlega það. Afstæðar staðsetningar (Ragnar Slunga) sýna skjálftana liggja á brotaplani með strik N29°A og halla 77° til suðausturs. Brotlausnir skjálftana sýna aðallega siggengishreyfingar í skjálftunum.

Um 20 skjálftar mældust annars staðar á Hengilssvæðinu, stærsti 2,7 að stærð. Um tugur smáskjálfta mældist á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Um tveir tugir skjálfta urðu á Reykjanesskaganum og nokkrir á Reykjaneshrygg. Stærstu skjálftar voru um og innan við tvö stig.

Norðurland

Um 40 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi, litlu færri en í liðinni viku, allir innan við tvö stig. Mesta virknin var austan Grímseyjar og í Öxarfirði. Fáeinir skjálftar urðu við Hjalteyri, þar sem skjálftahrina varð seinni hluta desembermánaðar s.l. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Um 50 skjálftar urðu í Vatnajökli í vikunni sem er svipaður fjöldi og næstu tvær vikur á undan. Mesta virknin var að venju við Bárðarbungu þar sem rúmlega 40 skjálftar urðu. Stærsti skjálftinn varð í suðaustanverðri Bárðarbungu þann 4. janúar klukkan 18:39 og var hann 3,7 að stærð. Þann 8. janúar klukkan 11:37 varð síðan skjálfti 3,5 að stærð í öskjunni norðanverðri. Tæplega 20 skjálftar voru á svæðinu norðan Vatnajökuls og er það svipaður fjöldi í vikuna á undan. Flestir voru við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn var rúm tvö stig.

Mýrdalsjökull

Á fjórða tug skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, heldur færri en í síðustu viku. Flestir urðu undir sunnan- og vestanverðri Kötluöskjunni, þar sem skjálfti af stærð 3,5 varð klukkan 07:09 þann 5. janúar. Fáeinir skjálftar urðu bæði á undan og eftir skjálftanum. Þann 7. janúar klukkan 08:41 varð skjálfti af stærð 3,0 á milli sigkatla 5 og 6. Nokkrir skjálftar voru staðsettir í vestanverðum jöklinum, allir um og innan við eitt stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust einnig nokkrir skjálftar, svipaðrar stærðar.

Jarðvakt