| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20170109 - 20170115, vika 02

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Talsvert minni virkni var í þessari viku en vikuna á undan. Þessa vikuna mældust um 250 jarðskjálftar miðað við um 500 vikuna á undan. Munar þar mestu um hrinu, með um 300 skjálftum, sem varð í Grafningi þann 4. janúar en engin stór hrina varð í þessari viku. Lítil skjálftahrina hófst hins vegar kl. 00:20 þann 11. janúar, líklega af völdum niðurdælingar affallsvatns, við Hveradali á Hellisheiði. Hrinan stóð yfir í einn og hálfan tíma, með um 15 skjálftum. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð. Frekar rólegt var á Reykjanesskaga. Álíka margir skjálftar urðu á Norðurlandi þessa vikuna og þá á undan. Sömu sögu er að segja af Mýrdalsjökulssvæðinu. Rúmlega 40 skjálftar mældust undir Vatnajökli, litlu færri en í síðustu viku. Um helmingur skjálftanna var við Bárðarbungu, þar á meðal stærsti skjálftinn sem varð í jöklinum í vikunni. Sá varð laust fyrir miðnætti (23:58) þann 12. janúar, 3,0 að stærð og var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar.
Suðurland
Lítil skjálftahrina hófst kl. 00:20 þann 11. janúar við Hveradali á Hellisheiði, líklega af völdum niðurdælingar affallsvatns. Hrinan stóð yfir í einn og hálfan tíma, með um 15 skjálftum. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð. Á annan tug skjálfta voru staðsettir á Hengilssvæðinu og í Ölfusi.
Reykjanesskagi
Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum. Um tugur skjálfta mældist í nágrenni Kleifarvatns, nokkrir vestar á skaganum og aðrir austar. Stærsti skjálftinn varð við Reykjanes þann 15. janúar kl. 10:31, 2,1 að stærð.
Norðurland
Um 40 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi og er það svipuð virkni og í síðustu viku. Um helmingur skjálftanna var austan Grímseyjar. Stærsti skjálftinn á því svæði varð 13. janúar og var hann 2,3 að stærð. Um tugur smáskjálfta mældist í Öxarfirði og álíka fjöldi við Kröflu.
Hálendið
Rúmlega 40 skjálftar mældust undir Vatnajökli, litlu færri en í síðustu viku. Um helmingur skjálftanna var við Bárðarbungu, þar á meðal stærsti skjálftinn sem varð í jöklinum í vikunni. Sá varð laust fyrir miðnætti (23:58) þann 12. janúar, 3,0 að stærð og var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Rúmlega tugur smáskjálfta mældist í bergganginum, þaðan sem hann beygir til norðurs og norður fyrir Dyngjujökul.
Um 30 skjálftar mældust á svæðinu norður af Vatnajökli, rúmlega helmingur við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Lítil skjálftahrina hófst við norðaustanverð Herðubreiðartögl kl. 08:06 þann 12. janúar. Hrinan stóð fram yfir hádegi með samtals um 10 skjálftum. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir norður af Vaðöldu og fáeinir við Öskju.
Stakur skjálfti varð þann 11. janúar kl. 07:47 við sunnanvert Blöndulón. Hann var 1,8 að stærð.
Mýrdalsjökull
Tæplega 40 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli sem er svipaður fjöldi og vikuna á undan. Flestir skjálftanna voru innan Kötluöskjunnar, einkum við sigkatlana í henni austan- og vestanverðri. Nokkrir skjálftar urðu í vestanverðum jöklinum, þar á meðal stærsti skjálftinn í jöklinum þessa vikuna, 2,3 að stærð. Stakur skjálfti varð í Eyjafjallajökli þann 10. janúar kl. 21:20, 1,8 að stærð. Tæpur tugur skjálfta varð á Torfajökulssvæðinu, stærsti tæp tvö stig.
Jarðvakt