Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170320 - 20170326, vika 12

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 420 skjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku, talsvert færri en í síðustu viku. Stærsti skjálfti vikunnar á landinu var af stærð 3,1 og mældist í Bárðarbungu þann 21. mars. Síðar sama dag mældist skjálfti af stærð 3,0 í Bárðarbungu. Þó mældist skjálfti af stærð 4,0 (EMSC 5,0) á Kolbeinseyjarhrygg í hrinu sem hófst þann 26. mars. Alls mældust sex skjálftar yfir 3,0 að stærð í þeirri hrinu. Um 150 skjálftar mældust í skjálftahrinu í Herðubreið sem hófst um miðjan marsmánuð. Heldur dró úr virkni þeirrar hrinu þegar leið á vikuna. Í Mýrdalsjökli mældust um 40 skjálftar og í Heklu mældust tveir skjálftar. Taka ber fram að breytingar voru gerðar á SIL hugbúnaði sem tóku gildi seinni partinn 17. mars en með þeim jókst skjálftanæmni sem sér í lagi virðist hafa haft áhrif á svæðið í N-Vatnajökli. Gera má því ráð fyrir að nú mælist enn fleiri smáskjálftar á landinu.

Suðurland

Tæplega 40 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Um 15 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og tveir skjálftar mældust í Heklu. Einn skjálfti mældist suðvestan Vestmannaeyja þann 25. mars. Aðrir skjálftar dreifðust um sprungur Suðurlands.

Reykjanesskagi

Rúmlega 20 skjálftar mældust á Reykjanesi í vikunni, allir af stærð 2,0 eða minni. Virknin var að mestu bundin við Krýsuvíkursvæðið að þessu sinni. Nokkrir mældust í Fagradalsfjalli en aðrir dreifðust um nesið.

Norðurland

Rúmlega 30 skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku og var stærsti skjálftinn þar 1,9 að stærð. Virknin var mest á Grímseyjarbeltinu en um tugur skjálfta mældist á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Einn skjálfti mældist á Dalvíkurbeltinu og nokkrir skjálftar mældust í Kröflu.

Þann 26. mars hófst skjálftahrina norður á Kolbeinseyjarhrygg. Rúmlega 20 skjálftar mældust í hrinunni og var sá stærsti af stærð 4,0 en alls voru sex skjálftar sem mældust yfir 3,0 að stærð.

Hálendið

Rúmlega 70 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, þar af voru um 20 í bergganginum undir Dyngjujökli. Í Bárðarbungu mældust rúmlega 30 skjálftar. Stærsti skjálftinn var af stærð 3,1 þann 21. mars og síðar sama dag mældist skjálfti af stærð 3,0. Tæplega 10 skjálftar mældust við Grímsvötn og nokkrir á Lokahrygg. Um fimm skjálftar mældust í Öræfajökli í vikunni og fjórir í Kverkfjöllum.

Norðan Vatnajökuls mældust rúmlega 150 skjálftar en flestir þeirra mældust í jarðskjálftahrinu við Herðubreið. Sá stærsti var 2,6 að stærð og mældist þann 22. mars við Herðubreið. Virknin var að mestu bundin við Herðubreið, Herðubreiðartögl og Dyngjufjöll. Einnig mældust nokkrir norðan við Upptyppinga.

Á Torfajökulssvæðinu mældust tveir skjálftar. Tveir skjálftar mældust í Flosajökli í Langjökli í vikunni og tveir suðaustan við Langjökul. Einnig mældust tveir skjálftar sunnan við Blöndulón og einn skjálfti mældist í Skriðutindum suðvestan Hlöðufells.

Mýrdalsjökull

Um 40 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku. Langflestir skjálftanna voru innan Kötluöskjunnar. Nokkrir mældust við Tungnakvíslarjökul og einn í Kötlujökli. Stærsti skjálftinn í Mýrdalsjökli var 2,3 að stærð.

Jarðvakt