Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170501 - 20170507, vika 18

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 550 skjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku, talsvert fleiri en í síðustu viku. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,5 að stærð þann 6. maí en hann varð á þekktri sprungu á Suðurlandi sem hrökk síðast árið 1630. Upptök skjálftans voru um tveimur kílómetrum suðaustan við Árnes og fannst hann vel á suðvesturhorni landsins. Stuttu síðar varð skjálfti á saman stað af stærð 3,3. Síðar sama dag varð skjálfti í Bárðarbungu sem var 3,2 að stærð. Þann 1. maí varð skjálfti af stærð 3,6 í Bárðarbungu. Rúmlega 40 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni.

Suðurland

Um 90 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Stærsti skjálftinn mældist 4,5 að stærð og var stærsti skjálfti liðinnar viku. Upptök skjálftans voru um tveimur kílómetrum suðaustur af Árnesi á sprungu sem síðast hrökk árið 1630. Skjálftinn fannst vel víða á Suðurlandi. Stuttu eftir þennan skjálfta varð skjálfti á sama stað af stærð 3,3. Hann fannst einnig á svæðinu. Um 40 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Aðrir skjálftar dreifðust um sprungur brotabeltisins en nokkrir skjálftar mældust einnig á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Um 20 skjálftar mældust á Reykjanesinu og einn á Reykjaneshrygg í liðinni viku. Stærsti skjálftinn á svæðinu var 2,5 að stærð þann 7. maí við Kleifarvatn. Aðrir skjálftar voru heldur minni.

Norðurland

Tæplega 150 skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku og voru þeir allir undir 2,0 að stærð. Virknin var aðallega á Grímseyjarbeltinu og á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Nokkrir skjálftar mældust við Þeistareyki og við Kröflu.

Hálendið

Um 150 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, þar af rúmlega 40 í bergganginum undir Dyngjujökli. Í Bárðarbungu mældust tæplega 70 skjálftar. Stærsti skjálftinn var af stærð 3,6 þann 1. maí og þann 6. maí mældist skjálfti af stærð 3,2. Tæplega 10 skjálftar mældust við Grímsvötn og nokkrir á Lokahrygg. Rúmlega 10 skjálftar mældust í Öræfajökli í vikunni en nokkuð var um smáskjálfta í sunnanverðum Vatnajökli. Tveir skjálftar mældust við Kverkfjöll. Norðan Vatnajökuls mældust tæplega 80 skjálftar, allir undir 2,0 að stærð. Virknin var mest í nágrenni Herðubreiðar, Herðubreiðartagla og í Dyngjufjöllum. Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 30 skjálftar.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 40 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku. Flestir skjálftanna voru innan Kötluöskjunnar en einnig mældust nokkrir við upptök Tungnakvíslarjökul og í Kötlujökli. Allir skjálftarnir voru undir 2,0 að stærð.

Jarðvakt