Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170515 - 20170521, vika 20

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í 600 jarðskjálftar mældust í vikunni, um 100 fleiri en í síðustu viku. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi þar sem var hrina skammt norðaustan Flateyjar sem stóð alla vikuna og smáhrina norðaustur af Siglunesi. Heldur fleiri skjálftar mældust í Bárðarbungu þessa viku en þá síðustu. Stærstu skjálftarnir urðu með stuttu millibili að kvöldi 20. maí, 3,8 og 3,9 að stærð. Það voru jafnframt stærstu skjálftar vikunnar. Um 40 skjálftar urðu í Mýrdalsjökli, flestir innan eða við öskjubarm Kötlu, stærsti 1,8.

Suðurland

Um 30 smáskjálftar voru staðsettir á Hengilssvæðinu. Helmingurinn varð á niðurdælinarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla á Hellisheiði, flestir um kvöldmatarleytið þann 15. maí. Einnig mældust nokkrir skjálftar við Nesjavelli, Ölkelduháls og norðan Hveragerðis. Um tugur skjálfta mældist á Hestvatnssprungunni sem hrökk 21. júní 2000, stærsti tæp tvö stig og á annan tuginn á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga, þar af tæpur tugur í nágrenni Krýsuvíkur.. Allir skjálftarnir voru um og undir tveimur stigum. Nokkrir skjálftar mældust á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Tæplega 200 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, heldur fleiri en í síðustu viku. Yfir 100 skjálftar mældust skammt norðaustur af Flatey á Skjálfanda. Á því svæði hófst skjálftahrina í fyrri viku og hélt hún áfram alla þessa viku. Stærsti skjálftinn var tæp tvö stig en flestir aðrir undir einu stigi. Smáhrina hófst upp úr kl. 6 þann 18. maí, um 12 kílómetra norðaustur af Siglunesi, og stóð hún fram eftir morgni. Um 20 skjálftar mældust, sá stærsti 2,5 að stærð. Annar eins fjöldi varð í nágrenni Grímseyjar, allir um og innan við eitt stig. Í Öxarfirði voru einnig tæpir tveir tugir skjálfta staðsettir, stærsti um tvö stig. Nokkrir smáskjálftar urðu við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Um 70 skjálftar mældust við Bárðarbungu, 30 fleiri en vikuna á undan. Þrír skjálftar voru yfir þremur stigum og urðu þeir allir, við norðanverða öskjubrúnina, að kvöldi 20. maí en þann dag var hvað mest virkni á þessum slóðum í vikunni. Sá fyrsti varð kl. 20:32, 3,8 að stærð. Þremur mínútum síðar varð annar af stærð 3,9 og kl. 21:15 kom sá þriðji, 3,2 að stærð. Rúmlega 20 smáskjálftar urðu í bergganginum undir og framan við Dyngjujökul, en voru 40 vikuna á undan. Á annan tug smáskjálfta voru staðsettir í Öræfajökli og nokkrir á Lokahrygg og við Grímsvötn.
Heldur meiri virkni var á svæðinu norðan Vatnajökuls en í fyrri viku. Við Öskju mældust ríflega 20 skjálftar (10 í síðustu viku), allir um og undir einu stigi. Um 30 fleiri skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl í þessari viku en vikuna á undan. Voru nú 40 en 10 í síðustu viku.
Tveir skjálftar urðu í Langjökli sá stærri 1,4. Sami fjöldi varð í ofanverðum Lundareykjardal í Borgarfirði sá stærri 1,4. Skjálftar verða á þessu svæði af og til og 1996 og 2000 urðu þar skjálftahrinur.

Mýrdalsjökull

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, litlu færri en vikuna á undan. Flestir urðu innan eða við öskjubarm Kötlu. Stærsti skjálftinn varð 21. maí kl. 08:42 og var hann við austanverða Kötluöskjuna, nálægt sigkötlum 10 og 11, 1,8 að stærð. Á annan tug skjálfta mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt