| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20170605 - 20170611, vika 23
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 650 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni sem er svipaður fjöldi og undanfarnar vikur. Stærsti
skjálftinn í og við landið mældist 3,2 að stærð með upptök um 17 km norðaustur af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg.
Áfram er viðavarandi smáskjálftavirkni norðaustur af Flatey á Skjálfanda og einnig við Lundarreykjadal i Borgarfirði.
Suðurland
Tæplega 40 smáskjálftar voru á Suðurlandsundirlendinu. Upptök þeirra voru í Ölfusi, Flóa, Skeiðum, Holtum og Landsveit.
Stærsti skjálftinn mældist 1,5 stig með upptök í Áshverfinu, um 7 km suðvestur af Hellu þann 9.6. kl. 05.33.
Fimm skjálftar voru undir Heklu og voru þeir allir minni en 1 að stærð.
Tæplega 10 smáskjálftar voru á Hengilssvæðinu, sá stærsti var 0,9 að stærð með upptök suður af Hrómundartindi þann 9.6. kl. 07.34..
Reykjanesskagi
Rúmlega 60 skjálftar voru á Reykjanesskaganum. Þar af voru um 40 skjálftar á Krísuvíkursvæðinu og þar mældist
stærsti skjálftinn af stærð 2,6 þann 8.6. kl. 20:25. Fáeinir skjálftar voru á Reykjanesi, við Fagradalsfjall og
suður af Bláfjöllum.
Skjálfti af stærð 3,2 mældist um 17 km norðaustur af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg þann 10.6. kl. 11:14.
Norðurland
Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti voru um 220 skjálftar. Þar af voru um 130 skjálftar norðaustur af Flatey á Skjálfanda
en þar hefur skjálftavirkni verið viðvarandi undanfarnar vikur og var stærsti skjálftinn þar 2 stig. Tæplega 50 skjálftar voru suður og austan við
Grímsey, þeir stærstu um 2,2 að stærð. Rúmlega 20 skjálftar voru úti fyrir mynni Eyjafjarðar, þeir stærstu um 1,7 að stærð.
Fáeinir smáskjálftar voru í Öxarfirði. Nokkrir smáskjálftar voru einnig við Þeistareyki og Víti í Kröflu.
Hálendið
Undir og við Vatnajökul voru tæplega 130 jarðskjálftar. Þar af mældust um 30 skjálftar undir Bárðarbunguöskjunni
og um 35 skjálftar í ganginum. Um 20 skjálftar voru við Tungnafellsjökul. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 stig með
upptök í Bárðarbunguöskjunni. Nokkrir smáskjálftar voru við Grímsvötn. Fáeinir djúpir skjálftar voru við Trölladyngju og
suðaustur af Bárðarbunguöskjunni. Nokkur dreif af skjálftum var í skriðjöklunum
suður af Vatnajökli sem líklega tengjast skriði í þeim.
Við Öskju og Herðubreið mældust um 70 skjálftar. Þeir voru allir undir 1,1 að stærð.
Rúmlega 30 jarðskjálftar voru við Lundarreykjadal í Borgarfirði, sá stærti 2,5 að stærð þann 9. júní kl. 19:05.
Mýrdalsjökull
Undir Mýrdalsjökli mældust um 50 skjálftar. Þar af voru rúmlega 40 undir Kötluöskjunni og
tæplega 10 undir vesturhluta jökulsins, við Goðabungu. Stærsti skjálftinn mældist 2,4 stig
þann 9.6. kl. 01:52 með upptök undir norðurhluta Kötluöskjunnar. Einn smáskjálfti um 1 að stærð
var rétt suður af toppgíg Eyjafjallajökuls þann 7. júní. Á Torfajökulssvæðinu voru um 15 skjálftar. Sá stærsti
mældist 1,4 stig með upptök um 6 km vestsuðvestur af Landmannalaugum.
Jarðvakt