Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170619 - 20170625, vika 25

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 550 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku. Fjórir skjálftar yfir þremur að stærð mældust í vikunni, sá stærsti af stærð 3,6 var staðsettur í Mýrdalsjökli, í austanverðri Kötluöskjunni, þann 20. júní kl. 18:52. Annar skjálfti af stærð 3,4 var staðsettur í miðjum Mýrdalsjökli þann 21. júní um kl. 13:18. Í suðaustanverðri Bárðarbungu mældust tveir skjálftar, 3,1 og 3,2 að stærð þann 21. júní með skömmu millibili, kl. 6:36 og 6:38. Flestir skjálftar mældust norðan við land í hrinum norðaustan við Grímsey, í Öxarfirði og í Eyjafjarðarálnum. Rúmlega 120 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli.

Suðurland

Rúmlega 70 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Allflestir voru litlir og dreifðust þeir fremur jafnt um suðurlandsbortabeltið. Rúmlega 30 skjálftar voru staðsettir á Hengilsvæðinu, stærsti 2,5 að strærð í Reykjadal. Tveir smáskjálftar voru staðsettir í Heklu sá stærri 0,1 að stærð í yfirborði.

Reykjanesskagi

Tæplega 15 skjálftar mældust á Reykjanesi í vikunni að auki mældust tæplega tíu skjálftar úti fyrir landi. Stærsti skjálftinn mældist af stærð 1,8 og var staðsettur 8 km suðsuðvestur af Reykjanestá.

Norðurland

Fjórir smáskjálftar undir 1 að stærð voru staðsettir í Kröflu og einn af stærð 1,3 við Þeystareyki. Norðan við land mældust um 25 smáskjálftar í Öxarfirði, tæplega 40 skjálftar norðaustan við Flatey á Skjálfanda og um 60 skjálftar norðan og austan við Grímsey. Fimm skjálftar mældust á Flateyjar-Skjálfanda misgenginu. Um tólf skjálftar mældust í Eyjafjarðarálnum þar sem stærsti skjálftinn á svæðinu mældist 2,2 að stærð.

Hálendið

Átta skjálftar mældust í og við Öræfajökul í vikunni, sá stærsti 2,2 að stærð þann 19. júní. Um 30 skjálftar mældust í Bárðarbungu í vikunni, þeir stærstu mældust í suðaustanverðri Bárðarbungu öskjunni, 3,1 og 3,2 að stærð þann 21. júní með skömmu millibili kl. 6:36 og 6:38. Í berganginum undir Dyngjujökli mældust um 20 smáskjálftar, einn skjálfti var samt stærri eða um 2,2 að stærð syðst í ganginum. Um 20 smáskjálftar voru staðsettir við Öskju og um 25 suðvestan við Herðubreið. Þar að auki voru 15 smáskjálftar staðsettir á víð og dreyf um svæðið (nágrenni Dyngjufjalla, Herðubreiðar).

Mýrdalsjökull

Rúmlega 120 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti var 3,6 að stærð í austanverðri Kötluöskjunni, þann 20. júní kl. 18:52. Annar skjálfti af stærð 3,4 var staðsettur í miðjum Mýrdalsjökli þann 21. júní um kl. 13:18. Flestir skjálftar komu í hrinum þessa tvo daga. Um 24 smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti um 2 að stærð, varð nokkru sunnar, í Bláfjöllum nærri upptökum Bláfjallakvíslar.

Jarðvakt