Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170724 - 20170730, vika 30

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Stærsti skjálftinn í vikunni mældist 4,5 stig þann 26.7. kl. 22:18 með upptök við Austmannsbungu, norðaustantil í Kötluöskjunni. Skjálftahrina hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesskaganum morguninn þann 26.6. og ennþá mælast skjálftar á svæðinu. Þrír stærstu skjálftarnir þar þann 26.7. voru af stærð 3,9 kl. 11:40, 4,0 kl. 13:55 og 3,8 kl. 20:25. Þeir fundust allir vel á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Hlaup var í Múlakvísl að morgni 29.7. sem fjaraði síðan út um daginn.

Suðurland

Fáeinir smáskjálftar voru á Hengilssvæðinu sá stærsti 1,4 stig við Nesjavelli. Nokkrir smáskjálftar voru sauðaustan við Eiturhól á Hellisheiði.

Á Suðurlandi voru einnig fáeinir skjálftar. Flestir við Hestfjall og þar varð stærsti skjálftinn 1,7 stig. Tveir smáskjálftar voru suðvestan við Heklu þann 28. og 30. júlí. Sá stærri og fyrri var 1,3 stig að stærð.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrina hófst snemma morguns þann 26.7. við Fagradalsfjall á Reykjanesskaganum. Þrír stærstu skjálftarnir í hrinunni voru þann sama dag og mældust þeir 3,9 stig kl. 11:40, 4,0 stig kl. 13:55 og 3,8 stig kl. 20:25. Allir þessir skjálftar fundust á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Stærsti skjálftinn fannst einnig í Borgarfirði og austur í V-Landeyjum. EInnig mældust um 11 skjálftar þar sem voru um og rúmlega 3 að stærð. Upptök skjálftanna voru í fyrstu rétt austan við Fagraalsfjall en seinnipart dagsins færðust þau til vesturs inn á Fagradalsfjall. Upptökin virðast aðallega vera á tveimur norðlægum misgengjum. Stærstu skjálftarnir sýna hægri handar sniðgengislausnir eftir norðlægu plani. Skjálftinn að stærð 3,8 um kvöldið sýnir siggengislausn og getur verið á NA-SV misgengi sem einnig virðist hafa verið virkt. Um 1200 skjálftar mældust við Fagradalsfjall þessa viku en ekki er búið að yfirfara nema hluta þeirra og ennþá koma smáskjálftar þar.

Norðurland

Um 70 skjálftar voru á svonefndu Tjörnesbrotabelti úti fyrir Norðurlandi. Tveir stærstu skjálftarnir voru rúm 2 stig að stærð, annar norðarlega í EYjafjarðarál en hinn inn í Öxarfirði. Upptök flestra skjálftanna voru á Grímseyjarbeltinu frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Einnig er áfram smáskjálftavirkni norðaustan við Flatey á Skjálfanda.

Hálendið

Á sjötta tug skjálfta mældust undir og við Vatnajökul. Stærsti skjálftinn mældist 2,9 stg þann 30.7. kl. 03:01 með upptök við Bárðarbungu og voru flestir skjálftanna með upptök í Bárðarbunguöskjunni.

Á fjórða tug skjálfta mældust við Öskju og Herðubreið. Þeir voru allir minni en 1,5 að stærð. Upptök þeirra voru aðallega við Herðubreið svo og suðaustan við Öskjuvatn. Djúpur skjálfti á um 20 km m 5ældist um 6 km suðvestan við Töglin þann 27.7. kl. 04:33.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 100 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Flestir þeirra voru undir Kötluöskjunni. Stærsti skjálftinn mældist 4,5 þann 26.7. kl. 22:18 með upptök við Austmannsbungu, við norðaustanverða öskjuna. Skjálftinn fannst vel í Mýrdal og í Skaftártungu. Stuttu áður eða kl. 22.15 mældist á sömu slóðum skjálfti að stærð 3,2. Á þessum tíma um kl. 22 þá mældust allmargir skjálftar á þessum slóðum eins og kemur fram á skjálftariti frá skjálftamælistöð á Rjúpnafelli. Aðfaranótt laugardagsinns 29.7. kl. 00:48 mældist einnig skjálfti af stærð 3 við Austmannsbungu. Upptök flestra skjálftanna í öskjunni voru í norður og norðausturhluta hennar.

Hlaup varð í Múlakvísl laugardaginn 29. júlí. Dagana á undan hafði rafleiðni aukist jafnt og þétt í Múlakvísl. Litlir óróapúlsar mældust á skjálftamælum í nágrenni Kötlu seinnipart dags þann 28.7. Aðfaranótt 29.7. komu fram fleiri og meiri óróahviður eins og oft hafa fylgt slíkum hlaupum áður. Stærsta hviðan var um kl. 01:20 og sást á mælum nokkuð víða um land. Rafleiðnin í Múlakvísl jókst verulega upp úr kl. 6 og náði hámarki rúmlega kl. 07 en fjaraði síðan hægt út. Sjá samsetta mynd af vatnshæð, rafleiðni og óróa. Flóðið rénaði verulega eftir hádegi. Loftmyndir sýna ferskar hringsprungur að minnsta kosti við sigketil (nr 10) við norðaustuhluta öskjunnar sem jarðhitavatn hefur lekið úr.

Jarðvakt