| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20170731 - 20170806, vika 31

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 500 skjálftar voru staðsettir í vikunni með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands, líkt og í síðustu viku. Stærstu skjálftar vikunnar voru M4,5, M3,8 og M3,2 í Bárðarbungu í jarðskjálftarhrinu sem átti sér stað rétt fyrir hádegi þann 2. ágúst. Skjálftinn sem var 4,5 af stærð er stærsti skjálfti sem mælst hefur í Bárðarbungu frá goslokum í lok febrúar 2015. Aðrir skjálftar vikunnar voru undir 3,0 að stærð.
Suðurland
Um 50 skjálftar mældust á Suðurlandi. Um 10 skjálftar voru í Eldborgarhrauni við Krossfjöll í Þrengslum, sá stærsti M2,6, en hinir mun minni. Um 15 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, sá stærsti 1,5 að stærð. Aðrir skjálftar dreifðust nokkuð jafnt um þekkt skjálftasvæði á Suðurlandi.
Reykjanesskagi
Rétt yfir 100 skjálftar mældust á Reykjanesskaga. Langflestir þeirra voru við Fagradalsfjall, eða um 90 talsins.Stærsti skjálftinn þar var 2,9 að stærð og mældist hann 4.ágúst kl. 08:43. Um 5 skjálftar voru úti á hrygg og um 5 við Kleifarvatn.
Norðurland
Úti fyrir Nnorðurlandi mældust um 110 skjálftar. Allflestir eða um 100 voru á Grímseyjarbeltinu frá Grímsey og inn í Öxarfjörð. Þar af voru rúmlega 20 í Öxarfirði, allir undir 1,0 að stærð, um 20 voru norðan við Flatey, einnig allir undir 1,0 að stærð, og um 20 við Grímsey, þar sem stærsti skjálftinn mældist af stærð 1,7.
Hálendið
Í Vatnajökli mældust um 75 skjálftar, þar af voru um 30 í Bárðarbunguöskjunni. Skjálftar af stærð 4,5, 3,8 og 3,2 mældust í Bárðarbungu þann 2. ágúst í jarðskjálftarhrinu sem átti sér stað rétt fyrir hádegi. Skjálftinn sem var 4,5 af stærð er stærsti skjálfti sem mælst hefur í Bárðarbungu frá goslokum í febrúar 2015. Um 20 aðrir skjálftar voru í hrinunni, allir undir 3,0 að stærð. Í Öræfajökli mældist aðeins einn skjálfti af stærð 1,2, en um 10 skjálftar mældust í og við Skeiðarárjökul, allir mjög grunnir, þar sem sá stærsti var 1,1 að stærð. Við Grímsfjall mældust um 3 grunnir skjálftar þar sem stærsti skjálftinn var af stærð 1,1 og um 14 skjálftar mældust í ganginum við Dyngjujökul, allir undir 1,0 að stærð. Tveir djúpir skjálftar mældust austan við Kverkfjallahrygg, á því svæði þar sem djúpir skjálftar mælast reglulega, báðir um 0,4 að stærð. Við Öskju og Herðubreið mældust um 40 skjálftar, sá stærsti 1,5 að stærð.
Mýrdalsjökull
Um 30 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, mun færri en í síðustu viku, en flestir þeirra voru í Kötluöskjunni þar sem stærsti skjálftinn var 2,1 að stærð.
Um 75 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, en þann 3. ágúst var jarðskjálftahrina suðvestan við jarðhitasvæðið í Hattveri, norðvestan við Torfajökul. Stærsti skjálftinn í hrinunni var kl. 12:07 og hafði stærðina 2,8. Fólk í hjólaferð í nágrenninu fann vel fyrir skjálftanum (sjá mbl).
Rúmlega 50 skjálftar mældust í hrinunni þennan dag og eru þeir brotaskjálftar en oft mælast á þessum slóðum lágtíðnismáskjálftar sem erfitt er að staðsetja. Afstæð staðsetningaraðferð (Ragnar Slunga) sýnir að skjálftarnir eru á nær lóðréttu brotaplani með strik N59°A og að upptök skjálftanna eru á tæplega 1 km dýpi. Brotlausn stærsta skjálftans kl.12:07 sýnir að hann er á nær lóðréttu vinstri-handar sniðgengi með strik N63°A. Brotlausnin gefur einnig að stærsta lárétta spennan hefur áttarhornið N19°A. Afstæðu staðsetningarnar eru á NA-SV línu sunnan við Hatt og norðvestan við Hnausa.
Jarðvakt