Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170807 - 20170813, vika 32

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni og er það svipaður fjöldi og vikuna á undan. Mesta virknin var úti fyrir Norðurlandi. Skjálftar undir Bárðarbungu voru bæði færri og smærri í þessari viku en þeirri síðustu. Fáeinir skjálftar mældust suðvestur af Heklu, stærsti 1,2 að stærð. Skammvinn smáskjálftahrina varð um helgina við Vífilsfell á Sandskeiði og sömuleiðis við Kleifarvatn. Fleiri skjálftar urðu undir Mýrdalsjökli í þessari viku en síðustu. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar þar sem stærsti skjálftinn var 3,0 þann 12. ágúst kl. 02:06 og var það jafnframt stærsti skjálfti sem mældist á landinu í vikunni.

Suðurland

Smáskjálftahrina hófst síðla kvölds þann 12. ágúst við Vífilsfells á Sandskeiði. Hrinan stóð fram eftir nóttu með um 20 mældum skjálftum. Hátt í 50 smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi og um 30 víðs vegar á Suðurlandsundirlendinu. Fáeinir litlir skjálftar voru staðsettir við suðvestanverða Heklu, stærsti varð 11. ágúst kl. 14:24, 1,2 að stærð. Tveir smáskjálftar urðu á svipuðum slóðum í síðustu viku.

Reykjanesskagi

Rúmlega 20 skjálftar mældust í nágrenni Kleifarvatns, flestir í smáhrinu sem hófst þann 12. ágúst kl. 11:33:44 með skjálfta sem var 2,7 að stærð. Á annan tug eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið. Hrinan fjaraði út laust fyrir kl. 14. Tæplega 20 jarðskjálftar urðu við Reykjanestá, flestir þann 9. ágúst. Stærsti skjálftinn varð þann dag kl. 22:42. Hann var 2,7 að stærð, aðrir voru um og innan við eitt stig. Svipaður fjöldi skjálfta mældist við Fagradalsfjall og var það svæði virkast í upphafi viku. Tveir skjálftar voru rúmlega tvö stig, aðrir minni. Ríflega tugur skjálfta mælist á Reykjaneshrygg, stærsti þann 8. ágúst kl. 09:33, 2,9 að stærð.

Norðurland

Um 120 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Um 50 skjálftar urðu í Grímseyjarbeltinu og litlu færri í Húsavíkur-Flateyjar misgenginu. Allir skjálftarnir voru innan við 1,5 að stærð. Um 20 smáskjálftar urðu á svæðinum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Tæplega 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli í nokkrum þyrpingum. Skjálftar við Bárðarbungu voru bæði færri og smærri en í síðustu viku. Tveir skjálftar voru rétt rúmlega tvö stig en flestir um og innan við eitt stig. Smáskjálftar mældust suður af Grímsvötnum, á Lokahrygg, undir Skeiðarárjökli og svæðinu undir og framan við Dyngjujökul.
Ríflega 60 smáskjálftar mældust á svæðinu norður af Vatnajökli, tæplega helmingur við Öskju en aðrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Fáeinir skjálftar urðu suður af Langjökli.

Mýrdalsjökull

Um 80 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, mun fleiri en vikuna á undan. Flestir urðu innan Kötluöskjunnar, annars vegar í nágrenni sigkatla í vestanverðri öskjunni og hins vegar á svæðinu vestur af Austmannsbungu. Stærsti skjálftinn varð 12. ágúst kl. 02:06, 3,0 að stærð og var hann staðsettur mitt á milli þessara skjálftaþyrpinga. Nokkrir skjálftar voru stærri en tvö stig, aðrir minni.
Nokkrir litlir skjálftar mældust á svæðinu við Goðabungu, í vestanverðum jöklinum og nokkrir á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt