Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170814 - 20170820, vika 33

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 650 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, sem eru töluvert fleiri en í fyrri viku. Munar þar mestu um jarðskjálftahrinu í Bláfjöllum sem hófst þiðjudaginn 15. ágúst. Stutt hlé varð á hrinunni sem hófst að nýju 20. ágúst. Um 250 jarðskjálftar mældust í hrinunni en hún er enn í gangi. Stærsti skjálfti hrinunnar og jafnframt stærsti skjálfti vikunnar var 2,9 að stærð 20. ágúst kl 18:30 í Bláfjöllum. Talsvert færri jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli samanborið við síðustu viku og svipaður fjöldi í Bárðarbungu. Einn smáskjálfti mældist í Heklu.

Suðurland

Tæplega 60 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni, allir undir 2 að stærð. Einn smáskjálfti mældist við Heklu. Um 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, og um 30 á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrina hófst í Bláfjöllum snemma morguns 15. ágúst og stóð fram yfir miðnætti 17. ágúst. Hrinan hófst að nýju um hádegi 20. ágúst og stendur enn yfir. Í vikunni mældust um 250 jarðskjálftar í hrinunni, stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð 20 ágúst kl 18:30 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. 11 jarðskjálftar mældust við Kleifarvatn, sá stærsti 2,4 að stærð. Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Um 130 jarðskjálftar mældust úti fyrir norðurlandi í vikunni, sem er svipaður fjöldi og vikuna á undan. Um 60 jarðskjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu og rúmlega 70 á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, þar af 65 jarðskjálftar norðaustan við Flatey á Skjálfanda. Átta smáskjálftar mældust við Kröflu, fimm við Þeistareyki og einn í Skagafirði.

Hálendið

Um 70 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni sem er svipaður fjöldi og vikuna á undan. Allir skjálftarnir voru undir 2 að stærð. 20 jarðskjálftar mældust í Bárðarbungu og rúmlega 20 í bergganginum undir og fyrir framan Dyngjujökul. Smáskjálftar mældust við Tungnafellsjökul, Grímsvötn, Lokahrygg, Skeiðarárjökul, Síðujökul og Öræfajökul. Tæplega 30 jarðskjálftar mældust við Öskju, fjórir við Dynjufjöll ytri og rúmlega 20 við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Einn skjálfti mældist við Langjökul og tveir skjálftar rúmlega 50km austsuðaustur af Höfn í Hornafirði.

Mýrdalsjökull

15 jarðskjálftar mældust í Kötluöskjunni, talsvert færri en vikuna á undan. Flestir skjálftanna voru í norðaustanverðri öskjunni, sá stærsti 2,0 að stærð. Fimm smáskjálftar mældust við Goðabungu. Einn skjálfti mældist í Eyjafjallajökli og fimm á Torfajökulssvæðinu, þar af var sá stærsti 2,7 að stærð 18. ágúst.

Jarðvakt