| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20170904 - 20170910, vika 36

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 400 skjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,5 að stærð. Hann varð í Bárðarbungu þann 7. september en um klukkustund áður var skjálfti á svipuðum slóðum af stærðinni 4,1. Þessir skjálftar voru hluti af um 40 skjálfta hrinu í Bárðarbungu þann 7. september. Rúmlega 30 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni og einn skjálfti mældist í Heklu.
Suðurland
Um 40 skjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Stærsti skjálftinn var 2,1 og mældist þann 9. september kl. 10:37 fyrir ofan Hveragerði. Um tugur skjálfta mældist á Hengilssvæðinu en aðreir dreifðust um sprungur brotabeltisins. Einn skjálfti mældist í Heklu, þann 9. september
Reykjanesskagi
Tæplega 40 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni og voru þeir allir undir 2,0 að stærð. Virknin var nokkuð dreifð um skagann, frá Reykjanestá að Bláfjöllum.
Norðurland
Rúmlega 120 skjálftar mældust á Norðurlandi í liðinni viku. Stærsti skjálftinn var 2,6 að stærð þann 7. september á Húsavíkur-Flateyjarmisgengingu, í mynni Eyjafjarðar. Flestir skjálftanna mældust á Grímseyjarbeltinu og Húsavíkur-Flateyjarbeltinu. Einnig mældust nokkrir skjálftar á Dalvíkurmisgenginu. Tæplega tugur skjálfta mældist í Kröflu og nokkrir við Þeystareyki.
Hálendið
Tæplega 90 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, þar af um 20 skjálftar í bergganginum undir Dyngjujökli. Þann 7. september var um 40 skjálfta hrina í Bárðarbungu. Stærstu skjálftar hrinunnar voru 4,1 að stærð, kl. 2:15, og 4,5 að stærð, kl. 3:08. Seinni skjálftinn fannst af gangnamönnum við Leiðólfsfell. Nokkrir skjálftar mældust á Lokahrygg og tveir í nágrenni Grímsvatna. Einnig mældust nokkrir í jaðri Skeiðarárjökuls og í Öræfajökli. Einn skjálfti mældist í Kverkfjöllum.
Um 70 skjálftar mældust norðan Vatnajökuls, sá stærsti var 2,3 að stærð rétt norðaustan við Herðubreiðartögl. Virknin var mest í Dyngjufjöllum, í nágrenni Herðubreiðartagla og Herðubreiðar. Einnig mældust nokkrir skjálftar á Vikursandi, austan við Dyngjufjöll.
Á Torfajökulssvæðinu mældist tæplega tugur skjálfta. Nokkrir skjálftar mældust í vesturhlíðum Þórisjökuls og tveir suðaustan við Langjökul. Einnig mældist einn skjálfti sunnan við Skjaldbreið.
Mýrdalsjökull
Rúmlega 30 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku. Flestir skjálftanna voru innan Kötluöskjunnar en einnig mældust nokkrir í Tungnakvíslarjökli og við suðurbarm Mýrdalsjökuls. Stærsti skjálftinn var 2,3 að stærð þann 6. september en aðrir skjálftar voru undir 2,0 að stærð.
Jarðvakt