Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170918 - 20170924, vika 38

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 300 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í vikunni og er það svipaður fjöldi og vikuna á undan. Meiri virkni var undir og úti fyrir Norðurlandi í þessari viku en þeirri fyrri. Svipaður fjöldi skjálfta var undir Vatnajökli og vikuna á undan en færri í Mýrdalsjökli. Fáeinir smáskjálftar voru staðsettir við Heklu. Stærsti skjálfti á landinu varð 21. september kl. 21:33 undir Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli, 2,8 að stærð.

Suðurland

Um tugur smáskjálfta mældist í Ölfusi og á Hengilssvæðinu. Tæplega 30 jarðskjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu, nokkru færri en í síðustu viku. Stærsti skjálftinn var tvö stig en flestir aðrir undir einu stigi. Fáeinir smáskjálftar voru staðsettir í nágrenni Heklu.

Reykjanesskagi

Um 30 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga, heldur færri en vikuna á undan. Stærsti skjálftinn, tvö stig, varð við Reykjanestá þar sem um tugur skjálfta mældist. Skjálftar austar á skaganum, austur fyrir Brennisteinsfjöll, voru flestir um og innan við eitt stig. Viðvarandi virkni var í Bláfjöllum síðari hluta vikunnar og í vikulokin höfðu tæplega 50 skjálftar verið staðsettir á þeim slóðum. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig.
Rólegt var á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Líflegra var undir og úti fyrir Norðurlandi í þessari viku en þeirri síðustu. Yfir 50 skjálftar mældust þessa viku miðað við 15 í fyrri viku. Mesta virknin var í Grímseyjarbeltinu, einkum í Öxarfirði og skammt austur af Grímsey. Á þeim svæðum urðu um 30 skjálftar, allir innan við tvö stig. Aðrir skjálftar urðu í Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og á Skjálfanda. Stærsti skjálfti norðanlands varð skammt norður af Húsavík þann 23. september kl. 15:22, 2,0 að stærð.
Um tugur smáskjálfta mældist á svæðinu við Þeistareyki og annar eins fjöldi við Kröflu og Reynihlíð.

Hálendið

Svipaður fjöldi skjálfta, um 60, mældist undir Vatnajökli í þessari viku og þeirri fyrri. Tæpur tugur var staðsettur við Bárðarbungu, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálfti í jöklinum varð við austurbrún Bárðarbunguöskjunnar, þann 23. september kl. 21:19, 2,6 að stærð. Á annan tug smáskjálfta voru staðsettir í ganginum undir og norður af Dyngjujökli og nokkrir við Kverkfjöll og undir Skeiðarárjökli. Rúmlega 20 skjálftar mældust undir og við Öræfajökul, allir um og undir tveimur stigum.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls voru tæplega 50 skjálftar staðsettir, allir um og innan við eitt stig að stærð. Mesta virknin var við og í nágrenni Öskju, aðrir við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Nokkrir skjálftar mældust undir Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli. Stærsti skjálftinn varð 21. september kl. 21:33 og var hann 2,8 að stærð. Það var jafnframt stærsti skjálfti sem mældist á landinu í vikunni. Fáeinir litlir skjálftar urðu við Skálpanes, skammt austur af Langjökli.

Mýrdalsjökull

Ríflega tugur skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, helmingi færri en vikuna á undan. Stærsti skjálftinn varð við austurbarm Kötluöskjunnar 23. september kl. 09:42, 2,3 að stærð. Aðrir skjálftar voru flestir um og innan við eitt stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt