Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20170925 - 20171001, vika 39

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 480 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni sem eru töluvert fleiri en vikuna á undan þegar rúmlega 300 jarðskjálftar mældust. Munar þar mestu um meiri virkni úti fyrir Norðurlandi. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,1 að stærð í hrinu sem varð vestan við Langjökul þann 28. september. Um 50 jarðskjálftar mældust í hrinu norðaustan við Grímsey 1. október. Svipaður fjöldi skjálfta mældist í Bárðarbungu samanborið við fyrri viku, en fleiri skjálftar mældust í Mýrdalsjökli en í fyrri viku. Enginn skjálfti mældist við Heklu í vikunni.

Suðurland

Um 70 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni allir undir 2 að stærð. Um 20 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Tæplega 40 skjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Um 50 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni. Fjórir skjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,0 að stærð. 12 skjálftar mældust við Fagradalsfjall og 3 við Kleifarvatn.

Norðurland

Rúmlega 160 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi sem eru mun fleiri en vikuna á undan þegar rúmlega 50 jarðskjálftar mældust. Mesta virknin var á Grímseyjarbeltinu, en tæplega 50 skjálftar mældust í hrinu norðaustan við Grímsey 1. október, en alls mældust um 70 skjálftar á svæðinu í vikunni. Stærsti skjálfti hrinunnar var 2,6 að stærð. Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust í Öxarfirði. Tæplega 70 jarðskjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, en af þeim mældust tæplega 50 austsuðaustur af Flatey, allir undir tveimur að stærð. Einn skjálfti mældist suður af Siglufirði. Sjö skjálftar mældust við Kröflu og einn við Þeistareyki.

Hálendið

Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, aðeins færri en vikuna á undan. 13 skjálftar mældust í Bárðarbungu, svipaður fjöldi og vikuna á undan. Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu var 2,0 að stærð. 13 smáskjálftar mældust í bergganginum undir og fyrir framan Dyngjujökul, einn skjálfti mældist við Grímsfjall, einn við Tungnafellsjökul, einn við Hamarinn, tveir við Tungnaárjökul og tveir við Skeiðarárjökul. 17 skjálftar mældust við og undir Öræfajökli, aðeins færri en vikuna á undan. Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð 28. september. 35 jarðskjálftar mældust vestan við Langjökul í hrinu sem hófst 28. september. Upptök skjálftanna er á þekktu skjálftasvæði sunnan Hafrafells. Stærsti skjálfti hrinunnar og jafnframt stærsti skjálfti vikunnar var 3,1 að stærð kl 11:08 þann 28. september. Tilkynning barst um að skjálftinn hafi fundist í fjallaskála á svæðinu.

Mýrdalsjökull

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, töluvert fleiri en vikuna á undan. 29 jarðskjálftar mældust í Kötluöskjunni, tveir stærstu voru 2,6 að stærð 1. október. Átta skjálftar mældust við Goðabungu og einn smáskjálfti mældist í Eyjafjallajökli. Tíu skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 1,1 að stærð.

Jarðvakt