Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20171023 - 20171029, vika 43

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku, talsvert færri en vikuna á undan. Stærstu skjálftar vikunnar mældust í Bárðarbungu, en snörp skammvirk hrina varð þar kvöldið 26. október og fram á aðfaranótt þess 27. okt, þar urðu tveir skjálftar 4,7 að stærð. Sá fyrri kl. 23:26 og sá seinni kl. 00:16. Það voru stærstu skjálftar í eldstöðinni frá goslokum í Holuhrauni 2015. Talsverð smáskjálftavirkni var á landinu í vikunni, mest á brotabeltunum á Suðurlandi og fyrir norðan land á Grímseyjarbrotabeltinu og í Öxarfirði. Við Langjökul urðu tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð. Við vestari Skaftárketil mældust tveir skjálftar, sá stærri 1,8 að stærð þann 25. okt. Einnig mældust rúmlega 30 skjálftar í og við Öræfajökul, sá stærsti 2,2 að stærð aðfaranótt 29. október. Að lokum má nefna að þrír smáskjálftar mældust í toppi Heklu 0,1 til 0,2 að stærð.

Suðurland

Rúmlega 120 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni, um helmingur skjálftanna kom í þyrpingu um 7 km ANA við Selfoss í áframhaldandi eftirskjálftavirkni eftir skjálfta, sem mældist af stærð 4,1 í fyrri viku (viku 42). Stærsti skjálfti vikunnar á Suðurlandi mældist 2,2 að stærð í þessari þyrpingu. Um 15 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, allir undir 1,0 að stærð. Þrír smáskjálftar voru staðsettir í Heklu.

Reykjanesskagi

Tæplega 40 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesi í vikunni, flestir skjálftar mældust á Langahrygg, fimm skjálftar mældust í Bláfjöllum og aðrir fimm við Reykjanestá. Tveir skjálftar mældust yfir 2,0 að stærð, sá stærri 2,3 mældist norðaustan við Langahrygg og annar innan bæjarmarka Grindavíkur þann 27. okt, engar tilkynningar bárust vegna skjálftans. Úti á Reykjaneshrygg mældust tveir skjálftar og annar tæplega 50 km SSV við Selvog.

Norðurland

Um 140 skjálftar voru staðsettir á og úti fyrir Norðurlandi í vikunni, fjórir við Kröflu, sá stærsti 1,5 að stærð, þrír undir 1,0 að stærð mældust við Þeistareyki, einn við Húsavík undir 1,0 að stærð og annar í Mosahnjúk vestan við Nausteyrarvík af stærð 1,2. Um 40 skjálftar mældust í Öxarfirði, einn þeirra 2,9 að stærð, um 20 við Grímsey og rúmlega 20 rétt austan við eyna. Hrinan við Grímsey virðist vera að fjara út. Tveir skjálftar mældust úti á Kolbeinseyjarhrygg við Spar misgengið, sá stærri um 2,9 að stærð.

Hálendið

Um 30 skjálftar mældust í Bárðarbungu í vikunni, en snörp hrina varð þar kvöldið 26. október og fram á aðfaranótt þess 27. okt. Þar mældust tveir stærstu skjálftar vikunnar 4,7 að stærð. Sá fyrri mældist kl. 23:26 og sá seinni kl. 00:16. Þessir skjálftar eru stærstu skjálftar í eldstöðinni frá goslokum í Holuhrauni 2015. Í Grímsfjöllum mældust fimm smáskjálftar og tveir við vestari Skaftárketil og einn við Hamarinn. Þrír skjálftar um og yfir 1,5 að stærð mældust í Esjufjöllum. Rúmlega 30 skjálftar voru staðsettir í og við Öræfajökul, stærsti 2,2 að stærð aðfaranótt 29. október. Fyrir norðan Vatnajökul mældust um 50 skjálftar, 14 við Öskju sá stærsti 1,3 að stærð, tæplega 15 við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 1,4 að stærð. Sex smáskjálftar mældust við Trölladyngju. Um 20 skjálftar voru staðsettir í bergganginum undir Dyngjujökli, sá stærsti 2,4 að stærð aðfaranótt 24. okt. Við Langjökul mældust tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð, annar við Þjófadalafjöll þann 25. okt og hinn við Prestahnjúk þann 26. okt. Tæplega 10 skjálftar mældust sunnan við Langjökul, nánar tiltekið um 7,5 km sunnan við Eystri Hagafellsjökul.

Mýrdalsjökull

Lítil skjálftavirkni í Mýrdalsjökli í vikunni um 10 skjálftar undir 1,0 að stærð, flestir við Tungnakvíslarjökul. Tveir smáskjálftar í jaðri Eyjafjallajökuls og þrír á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt