Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20171113 - 20171119, vika 46

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 330 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, nokkru færri en í síðustu viku þegar um 360 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,7 að stærð norðvestur af Siglufirði, þann 13. nóv. kl. 07:36 og fannst vel á Siglufirði. Annar jarðskjálfti 3,4 að stærð mældist 18. nóv. kl. 01:01 á sama svæði. Rúmlega 35 skjálftar mældust í Öræfajökli, sem eru töluvert fleiri en í síðustu viku þegar um 20 jarðskjálftar mældust þar. Stærsti skjálfti þar mældist 1,3 að stærð þann 14. nóv. kl. 11:57. Álika margir jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, en nokkuð fleiri í Bárðarbungu samanborið við síðustu viku.

Suðurland

Rúmlega 35 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni, sem eru töluvert færri en vikuna á undan, þegar um 70 jarðskjálftar mældust. Allir skjálftarnir voru undir 1,6 að stærð. Tæplega 20 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu, sá stærsti 1,9 að stærð, þann 19. nóv. kl. 20:50. Fjórir smáskjálftar mældust suðaustur af Heklu.

Reykjanesskagi

Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga, heldur færri en vikuna á undan, þegar 20 mældust. Flestir urðu á svæðinu frá Kleifarvatni og vestur að Reykjanestá, sá stærsti mældist 2,3 að stærð þann 17. nóv. kl. 10:15, rétt norðaustur af Grindavík. Tveir skjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg, 2,5 og 2,3 að stærð, þann 13. og 14. nóv.

Norðurland

Tæplega 60 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, sem eru færri en vikuna á undan, þegar tæplega 90 skjálftar mældust. Fjórir jarðskjálftar mældust norðvestur af Siglufirði. Sá stærsti var 3,7 að stærð, þann 13. nóv. kl. 07:36, en hann var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar og fannst á Siglufirði. Annar skjálfti 3,4 að stærð mældist 18. nóv. kl. 01:01 á sama svæði. Um 15 jarðskjálftar mældust við Grímsey og á svæðinu rétt austur af, sá stærsti 2,1 að stærð, þann 13. nóv. kl. 10:11. Um 15 smáskjálftar mældust í Öxarfirði og rúmlega 10 mældust á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu. Fjórir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki. Fjórir jarðskjálftar mældust á Kolbeinseyjarhrygg, allir undir 1,9 að stærð.

Hálendið

Rúmlega 110 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli öllum í vikunni, sem eru talsvert fleiri en í síðustu viku, þegar 70 skjálftar mældust. Rúmlega 35 skjálftar mældust í Öræfajökli, sem eru töluvert fleiri en í síðustu viku þegar um 20 jarðskjálftar mældust þar. Stærsti skjálfti þar mældist 1,3 að stærð þann 14. nóv. kl. 11:57. Í Bárðarbungu mældust 30 skjálftar í vikunni, sá stærsti 2,3 að stærð þann 13. nóv. kl. 23:28. Tíu djúpir jarðskjálftar mældust austan við Bárðarbungu á svæði þar sem djúpir jarðskjálftar eru algengir, allir undir 1,2 að stærð. Um 20 jarðskjálftar mældust í bergganginum undir og fyrir framan Dyngjujökul, allir undir einu stigi. Fjórir smáskjálftar mældust við Grímsfjall. Einnig mældust nokkrir smáskjálftar á við og dreif í Vatnajökli. Um 45 jarðskjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Rúmlega 20 smáskjálftar mældust við Öskju og um 25 við Herðubreið og Herðubreiðartögl, allir undir 1,8 að stærð. Einn smáskjálfti varð við Kerlingarfjöll og þrír jarðskjálftar mældust við Langjökul, sá stærsti 1,8 að stærð.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, sami fjöldi og í síðustu viku. Þeir voru flestir innan Kötluöskjunnar, sá stærsti 1,9 að stærð, þann 17. nóv. kl. 20:16. Einn smáskjálfti mældist suðaustur af öskjunni og einn suður af Eyjafjallajökli. Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 10 jarðskjálftar, stærsti 2,4 að stærð, þann 15. nóv. kl. 00:06.

Jarðvakt