Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20171211 - 20171217, vika 50

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 300 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun færri en vikuna á undan þegar yfir 500 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar varð 16. desember kl. 02:41 við Bárðarbungu, 3,5 að stærð. Minni virkni var í Öræfajökli í þessari viku en þeirri fyrri og hrinunni við Skjaldbreið lauk.

Suðurland

Um 50 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, allir undir tveimur stigum. Tæpur tugur var staðsettur á svæðinu austur af Eiturhóli á Hellisheiði, í smáhrinu að kvöldi 16. desember, stærstu skjálftar rúmt stig. Sama kvöld varð einnig smáskjálftahrina á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur þar sem um tveir tugir skjálfta mældust. Aðrir skjálftar dreifðust um svæðið. Rúmlega 10 smáskjálftar mældust víðsvegar á Suðurlandsundirlendinu og einn við Heklu, sá varð 13. desember.

Reykjanesskagi

Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga allir undir tveimur stigum.

Norðurland

Yfir 50 jarðskjálftar mældust út fyrir Norðurlandi, heldur fleiri en í síðustu viku. Mesta virknin var í Grímseyjarbeltinu og allir skjálftar undir tveimur stigum. Fáeinir skjálftar voru á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Mun minni virkni var á Hálendinu í þessari viku (um 150) en þeirri á undan þar sem 350 skjálftar mældust. Um 80 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni. Mun rólegra var í Öræfajökli í þessari viku en þeirri fyrri, þar sem ríflega 20 jarðskjálftar voru staðsettir nú miðað við 100 í liðinni viku. Skjálftarnir dreifðust nokkuð jafn yfir vikuna og voru flestir innan við eitt stig. Tveir stærstu urðu 14. desember og voru báðir 1,4 að stærð. Fimmtán skjálftar urðu í Bárðarbungu miðað við 40 í síðustu viku. Stærsti skjálftinn varð 16. desember kl. 02:41, 3,5 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálti sem mældist á landinu í vikunni. Rúmlega tugur skjálfta mældist við Grímsvötn, allir litlir. Hátt í 30 smáskjálftar voru staðsettir í bergganginum undir og framan við Dyngjujökul.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 40 skjálftar, helmingurinn við Herðubreið og Herðubreiðartögl og hinn helmingurinn við Öskju. Allir skjálftarnir voru undir tveimur stigum að stærð.
Í vestara gosbeltinu mældust ríflega 30 jarðskjáfltar, þar af 25 eftirskjálftar við Skjaldbreið þar sem skjálftahrina var vikuna á undan. Stærsti skjálftinn var 2,1 að stærð og varð 11. desember kl. 22:24.

Mýrdalsjökull

Mjög rólegt var í Mýrdalsjökli líkt og undanfarnar vikur.

Jarðvakt