Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20181224 - 20181230, vika 52

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 300 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun færri en í síðustu viku þegar yfir 900 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar varð þann 28. desember kl. 01:16 við norðurbarm Bárðarbunguöskjunnar, 4,8 að stærð og er það þriðji stærsti skjálfti á þeim slóðum frá goslokum. Þann 30. desember kl. 02:56 varð jarðskjálfti, 4,4 að stærð, skammt suður af Skálafelli á Hellisheiði. Skjálftinn fannst vel um allt suðvestanvert landið. Skjálftavirkni var heldur minni í Bárðarbungu en í síðustu viku og rólegt í Öræfajökli.

Suðurland

Þann 30 desember kl. 02:56 varð jarðskjálfti skammt suður af Skálafelli á Hellisheiði. Skjálftinn var 4,4 að stærð og fannst vel ( hátt í 400 tilkynningar bárust) á öllu suðvesturhorni landsins, að Borgarfirði í norðri og austur á Hvolsvöll. Á fjórða tug eftirskjálfta mældust, stærstu rúm tvö stig. Tveir skjálftar voru staðsettir við Nesjavallavirkjun á aðfangadag. Sá fyrri varð um hádegisbilið, 2,0 en sá síðari um kl. 18:30, 1,8 að stærð. Einn smáskjálfti mældist við Heklu og um tugur á Suðurlandsundirlendinu. Rólegt var í Öræfajökli.

Reykjanesskagi

Tæplega 70 jarðskjálftar mældust þessa vikuna, mun færri en vikuna á undan. Virknin við Fagradalsfjall (þar sem jarðskjálftahrina hófst í síðustu viku) hélt áfram fyrri hluta vikunnar en fjaraði svo út. Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust þar, stærsti á jóladag kl. 04:48, 2,1 að stærð. Tæpur tugur skjálfta var staðsettur við Krýsuvík, allir innan við tvö stig. Rólegt var á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Ríflega 20 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, þar af um helmingur í Grímseyjarbeltinu og hinir á Skjálfanda og í mynni Eyjafjarðar. Flestir skjálftarnir voru um og innan við eitt stig. Nokkrir litlir skjálftar mældust við Þeistareyki og Kröflu. Tveir skjálftar voru staðsettir innst í Skagafjarðardölum, síðdegis þann 27. desember. Stærri skjálftinn var 2,1 að stærð.

Hálendið

Um 70 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, litlu færri en í siðustu viku. Tæplega 30 skjálftar urðu við Bárðarbungu, heldur færri en vikuna á undan. Stærsti skjálftinn varð 28. desember kl. 01:16 við norðanverðan öskjubarminn, 4,8 að stærð og er það þriðji stærsti skjálftinn frá goslokum. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Tveir stærstu voru 3,7 og 3,5 að stærð, aðrir mun minni. Sex smáskjálftar mældust í Öræfajökli, sami fjöldi og í síðustu viku. Tæplega 20 smáskjálftar voru staðsettir í bergganginum undir og framan við Dyngjujökul, þar af sex á svæðinu þar sem gangurinn beygir til norðurs. Aðrir skjálftar dreifðust um sunnan- og vestanverðan jökulinn.
Um 20 smáskjálftar mældust við Öskju, litlu færri við Herðubreið og Herðubreiðartögl og rúmur tugur norðan við Vaðöldu. Tveir skjálftar mældust undir Vestari-Hagafellsjökli í Langjökli, sá stærri 2,1 að stærð og stakur skjálfti í Þórisjökli.

Mýrdalsjökull

Mjög rólegt var í Mýrdalsjökli en einungis sex smáskjálftar mældust þar í vikunni og er það svipaður fjöldi og í fyrri viku. Tveir skjálftar urðu við Eyjafjallajökul og sami fjöldi á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt