Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20191223 - 20191229, vika 52

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 360 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun færri en í síðustu viku þegar um 1300 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,8 að stærð þann 27. desember, við Haukadal. Minni eða svipuð virkni var á flestum svæðum í vikunni samanborið við síðustu viku, aðallega á Reykjanesskaga. Örlítið meiri virkni var við Mýrdalsjökul og Vatnajökul og mikil virkni var suðvestur af Ásbyrgi. Enginn skjálfti mældist í Heklu í vikunni.

Suðurland

Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, nokkrum fleiri en í síðustu viku þegar 20 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn var 2,8 að stærð kl 18:30 þann 27. desember, við Haukadal. 11 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, sá stærsti 2,0 að stærð, en í síðustu viku þá mældust þar átta skjálftar. Enginn skjálfti mældist í Heklu í vikunni.

Reykjanesskagi

Í vikunni mældust rúmlega 60 skjálftar á Reykjanesskaga, mun færri en í siðustu viku þegar 1115 skjálftar mældust. Lang flestir mældust við Fagradalsfjall. Stærsti jarðskjálfti var 2,3 að stærð, þann 27. desember kl. 13:34 á Reykjanestá. Tæplega 15 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg í vikunni, allir undir 2,2 að stærð.

Norðurland

Um 30 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, svipaður fjöldi og í vikunni á undan. Flestir skjálftarnir mældust á Grímseyjarbeltinu og vestur af Húsavík, allir undir 2,1 að stærð. Tæplega 80 jarðskjálftar mældust á svæði um 10 km suðvestur af Ásbyrgi, allir undir 1,6 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust við Bæjarfjall og fimm við Kröflu.

Hálendið

Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, helmingi fleiri en vikuna á undan þegar um 30 skjálftar mældust. Sex smáskjálftar mældust í Bárðarbungu, sá stærri 1,5 að stærð, nokkrir fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru tveir. Um 20 djúpir skjálftar mældust þar sem berggangurinn beygir til norðausturs undir Vatnajökli á svæði sem oft mælast djúpir skjálftar og fimm skjálftar mældust í bergganginum undir Dyngjujökli. Tæplega 10 skjálftar mældust við Grímsvötn, sá stærsti 1,8 að stærð, þann 29. desember. Þrír smáskjálftar mældust austur af Hamrinum. Tæplega 10 smáskjálftar mældust í Öræfajökli. 16 smáskjálftar mældust við Öskju og rúmlega 30 við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Fjórir skjálftar mældust við Langjökul, allir undir 1,6 að stærð.

Mýrdalsjökull

Tæplega 10 smáskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, nokkrir fleiri en í vikunni á undan, þegar þrír skjálftar mældust. Fimm skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu í vikunni, sá stærsti 2,5 að stærð, þann 24. desember kl. 10:19.

Jarðvakt