| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20200113 - 20200119, vika 03

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 300 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, færri en vikuna áður þegar að þeir voru um 360 talsins. Tveir stærstu skjálftar vikunnar voru 4,5 að stærð staðsettir á Reykjaneshrygg um 70km SV af Reykjanestá. Þeir voru hluti af skammvinnri hrinu sem varð þar þann 18. janúar. Í hrinunni mældust um 50 skjálftar, þar af einn skjálfti til viðbótar stærri en 4,0 og sjö skjálftar á milli 3 og 4 að stærð. Jarðskjálfti af stærð 2,6 varð skammt SA við Hveragerði þann 15. janúar á sama svæði og nokkur virkni var á í vikunni á undan. Nokkrar tilkynningar bárust frá Hveragerði og Selfossi um að fólk hefði fundið skjálftann. Einn skjálfti af stærð 1,1 varð að kvöldi 19. janúar í Heklu.
Suðurland
Um eitt hundrað jarðskjálftar mældust í vikunni, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru 75. Þar af mældust tæplega 80 skjálftar skammt SA við Hveragerði, á sama svæði og nokkur virkni var í síðustu viku. Stærsti skjálftinn þar var 2,6 að stærð, en meirihluti skjálftanna var undir 1,0 að stærð. Víðsvegar um Hengilssvæðið mældust 11 smáskjálftar í vikunni. Einn skjálfti af stærð 1,1 mældist í Heklu í vikunni.
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga mældust 35 skjálftar í vikunni, aðeins fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru fimmtán. Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð staðsettur í Sveifluhálsi vestan Kleifarvatns. Þar var nokkur virkni að kvöldi 15. janúar, en þá mældust fjórir skjálftar stærri en 2,0 að stærð og alls 15 skjálftar. Þann 18. janúar varð skammvinn hrina á Reykjaneshrygg um 70km SV Reykjanesi þar sem tveir stærstu skjálftar vikunnar að stærð 4,5 urðu. Í hrinunni mældust um 50 skjálftar, þar af einn skjálfti til viðbótar stærri en 4,0 og sjö skjálftar á milli 3 og 4 að stærð. Þann 14. janúar mældust einnig þrír skjálftar á Reykjaneshrygg af stærð 2,1-2,5 um 15 km SV af Reykjanesi í nágrenni við Eldey.
Norðurland
Um tuttugu skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Flestir skjálftanna voru staðsettir á Grímseyjarbeltinu, þar sem stærsti skjálftinn var 2,0 að stærð. Tveir smáskjálftar voru staðsettir á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, einn í Eyjafjarðarál og annar við Grenivík á Dalvíkurmisgenginu. Í Kelduhverfi urðu þrír smáskjálftar, sex í nágrenni við Þeistareyki og tveir á Kröflusvæðinu.
Hálendið
Sjö skjálftar voru staðsettir í austurhluta Öskju og rúmlega tuttugu við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn þar var 1,9 að stærð, rétt sunnan við Herðubreið.
Í öskju Bárðarbungu voru tveir skjálftar staðsettir og einn til viðbótar skammt SA við hana. Þrír litlir skjálftar mældust í bergganginum sem liggur að Holuhrauni. Átta skjálftar urðu í og við Grímsvötn í þessarri viku, sá stærsti 1,5 að stærð. Átta skjálftar urðu í kringum Skaftárkatlana í vikunni, sá stærsti 2,4 að stærð þann 15. janúar. Stakur skjálfti af stærð 1,5 varð í Síðujökli og annar af stærð 1,2 í Breiðamerkurjökli. Auk þess varð einn skjálfti af stærð 1,5 í SV-verðum Langjökli. Enginn skjálfti varð í Öræfajökli í vikunni.
Mýrdalsjökull
Átta skjálftar mældust í Kötluöskjunni í vikunni. Þeir voru staðsettir á víð og dreif um öskjuna, en sá stærsti var í henni norðanverðri 2,2 að stærð.
Jarðvakt