Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200127 - 20200202, vika 05

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 1300 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, talsvert fleiri en vikuna áður þegar að þeir voru um 300 talsins. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,3 að stærð þann 31. janúar og var hann hluti af jarðskjálftahrinu sem stendur yfir rétt norðan við Grindavík. Skjálftinn fannst víða á suðvesturhorni landsins. Alls mældust tólf skjálftar yfir 3 í vikunni, allir í nágrenni Grindavíkur. Skjálfti af stærð 2,5 mældist í Mýrdalsjökli í vikunni. Enginn skjálfti mældist í Heklu og enginn í Öræfajökli.

Suðurland

Tæplega 60 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Stærsti skjálftinn var 2,1 að stærð í Hestfjalli. Tæplega 20 skjálftar mældust í nágrenni Raufarhólhellis. Aðrir skjálftar dreifðust um Hengilssvæðið og Suðurlandsbrotabeltið.

Reykjanesskagi

Að kvöldi 31. janúar hófst aftur hrina í nágrenni Grindavíkur, en nokkur skjálftavirkni hafði verið á svæðinu dagana á undan. Stærsti skjálfti hrinunnar var 4,3 að stærð, þann 31. janúar kl. 22:24. Stuttu áður, kl. 22:22 var skjálfti af stærð 3,9. Stærri skjálftinn fannst á Reykjanesi, Höfðuborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð og Kjós. Um 700 skjálftar voru staðsettir í hrinunni næsta sólarhringinn, flestir undir 2 stigum en sjö þeirra voru yfir 3 stigum. Alls mældust rúmlega 1100 skjálftar á Reykjanesi í vikunni, og voru um tólf skjálftar yfir 3 að stærð. Auk hrinunnar mældist um tugur skjálfta í Eldvörpum og í Langahrygg. Aðrir skjálftar dreifðust um skagann. Nokkrir skjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg, sá stærsti mældist 2,9 að stærð þann 1. febrúar.

Norðurland

Rúmlega 30 skjálftar mældust á Norðurlandi í vikunni, flestir á Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti skjálftinn mældist 1,6 að stærð þann 29. janúar, sunnan við Grímsey. Fimm skjálftar mældust í Kröflu og tveir við Þeistareyki.

Hálendið

Um 65 skjálftar mældust á Hálendinu í liðinni viku, og var sá stærsti um 1,8 að stærð við Geitlandsjökul í Langjökli. Þar mældust þrír skjálftar í vikunni. Einn skjálfti mældist við Kerlingarfjöll. Rúmlega 20 skjálftar mældust við Herðubreið og tæplega tugur við Öskju. Tæplega 30 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Þrír skjálftar mældust við Bárðarbunguöskjuna og um 15 skjálftar í bergganginum undir Dyngjujökli. Þrír skjálftar mældust við Kverkfjöll, um tugur skjálfta við Hamarinn og tæplega tugur skjálfta í Grímsvötnum. Enginn skjálfti var í Öræfajökli í vikunni. Fimm skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 15 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, og var sá stærsti 2,5 að stærð þann 29. janúar kl. 15:34. Aðrir skjálftar voru undir 2 að stærð og voru flestir innan Kötluöskjunnar.

Jarðvakt