Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200302 - 20200308, vika 10

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rétt rúmlega 1000 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar að þeir voru um 730. Munaði þar mestu um að tímabundið jókst virkni töluvert í jarðskjálftahrinu í nágrenni við Reykjanes sem hefur verið í gangi síðustu vikur. Sem hluta af þessarri auknu virkni mældust fimm skjálftar á stærðarbilinu 3,1-3,4 rétt norðan við Sýrfell á Reykjanesi þann 4. mars. Þann 6. mars mældist einn skjálfti til viðbótar stærri en 3,0 að stærð á svipuðum stað. Sá skjálfti var 3,1 að stærð. Alls mældust um 650 skjálftar í nágrenni við Reykjanes í vikunni, en virknin var mest dagana 4. og 6. mars. Tveir aðrir skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í vikunni, 3,2 að stærð við Kleifarvatn þann 3. mars og 3,1 að stærð í G¿imsvötnum þann 6. mars.

Suðurland

Þrettán skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, allir undir 1,0 að stærð. Það eru nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru rúmlega 40. Tólf smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Tveir skjálftar af stærð 0,8 og 1,1 mældust við Litlu-Heklu í vikunni. Þann 8. mars voru tveir skjálftar af stærð 1,3 og 1,8 staðsettir úti á Selvogsgrunni.

Reykjanesskagi

Um 720 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, tvöfalt fleiri en í vikunni á undan. Langflestir þeirra, um 650, voru staðsettir í nágrenni við Reykjanes. Þar jókst skjálftavirkni tímabundið, en þar hefur verið nokkur skjálftavirkni undanfarnar vikur. Virknin var mest seinnipart 4. mars, þá mældust fimm skjálftar yfir 3,0 að stærð, sá stærsti 3,4. Alls mældust um 270 skjálftar þar þann 4. mars og um 200 þann 6. mars þegar virknin var næst mest, en þá mældist einn skjálfti yfir 3 að stærð. Sá varð seinnipartinn 6. mars og var 3,1 að stærð. Í nágrenni við Grindavík voru staðsettir rúmlega 40 jarðskjálftar, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn þar var 1,7 að stærð. Fimm smáskjálftar voru staðsettir við Fagradalsfjall og tuttugu við Kleifarvatn. Stærsti skjálftinn við Kleifarvatn varð 3. mars og mældist 3,2 að stærð. Nokkrar tilkynningar bárust um að skjálftinn hafi fundist á Höfuðborgarsvæðinu. Aðrir skjálftar við Kleifarvatn voru undir 2,0 að stærð. Tugur skjálfta var staðsettur úti á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,5 að stærð. Helmingur þeirra var rétt norðan við Eldey og hinn helmingurinn norðan Geirfugladrangs.

Norðurland

Rúmlega 40 skjálftar voru staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, allir undir 2,0 að stærð. Tæplega helmingur þeirra var staðsettur norður af Gjögurtá þar sem jarðskjálftahrina hafði verið í gangi vikurnar á undan. Fjórir skjálftar voru staðsettir við Þeistareyki og tveir við Kröflu, allir undir 1,0 að stærð.

Hálendið

Fimmtán jarðskjálftar mældust í Öskju, þeir stærstu 1,7 að stærð. Tveir skjálftar af stærð 1,0 og 1,4 voru staðsettir við Dyngjufjöll ytri, vestan við Öskju. Nokkur virkni hófst norðan við Herðubreið að kvöldi 6. mars og stóð fram á næsta dag. Þá mældust rétt rúmlega 100 smáskjálftar þar, þeir stærstu 1,5 að stærð. Sunnan Herðubreiðar, í kringum Herðubreiðartögl, mældust 15 skjálftar í vikunni.

Tæplega 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, aðeins fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru rúmlega 40. Fjórir smáskjálftar voru staðsettir í Bárðarbunguöskjunni og sex í bergganginum sem liggur að Holuhrauni, þar var stærsti skjálftinn 1,8 að stærð. Þann 5. mars voru 9 djúpir jarðskjálftar staðsettir austan við Bárðarbunguöskjuna, sá stærsti mældist 1,3 að stærð. Djúpir jarðskjálftar eru algengir á því svæði. Tugur jarðskjálfta mældust á Lokahrygg í vikunni, tveir stærstu voru 2,2 að stærð. Tuttugu jarðskjálftar voru staðsettir í Grímsvötnum, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru sjö. Stærstu skjálftar vikunnar þar voru 3,1 að stærð þann 6. mars og 2,6 að stærð þann 2. mars. Sá stærri er stærsti skjálfti í Grímsvötnum síðan í nóvember 2018 þegar skjálfti af stærð 3,2 varð þar. Þrír smáskjálftar mældust í Öræfajökli. Stakir smáskjálftar mældust síðan vestan Esjufjalla, ofarlega í Skeiðarárjökli og í nágrenni við Trölladyngju norðan Vatnajökuls.

Fjórir skjálftar mældust síðan í kringum Geitlandsjökul í SV-verðum Langjökli, sá stærsti 1,8 að stærð og stakur smáskjálfti við Skjaldbreið.

Mýrdalsjökull

Fjórir skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli í vikunni, nokkuð færri en í vikunni á undan þegar þeir voru sextán. Stærsti skjálftinn í vikunni var 2,2 að stærð. Fimm skjálftar mældust í Torfajökulsöskjunni, sá stærsti 1,9, sem er svipuð virkni og í síðustu viku.

Jarðvakt