Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200309 - 20200315, vika 11

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 2400 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun fleiri en vikuna á undan. Ekki hefur unnist tími til að yfirfara alla skjálftana en um 1300 skjálftar eru yfirfarnir. Jarðskjálftahrina hófst norður af Grindavík þann 12. mars en þar var mikil virkni fyrr á árinu. Um 1600 jarðskjálftar mældust, á því svæði og þar af er búið að fara yfir um helminginn. Stærsti skjálftinn í hrinunni var metin 5,2 að stærð en við endurmat fékk hann stærðina 4,6. Skjálftinn fannst víða um suðvestanvert landið. Stærstu eftirskjálftar voru 3,4 og 3,3, sama dag. Skjálftahrinur urðu við Herðubreið og Nesjavelli. Minni virkni var í Vatnajökli í þessari viku en þeirri síðustu.

Suðurland

Um 60 skjálftar voru við Nesjavelli en þar hefur verið smáhrina í gangi síðan á sunnudag, 15. mars. Stærsti skjálftinn var 15. mars kl. 01:40, 2,3 að stærð. Nokkrir aðrir voru yfir tveimur stigum, aðrir mun minni. Nokkrir skjálftar mældust í Hjallahverfi í Ölfusi þann 11. mars. Stærsti var kl. 17:04, 1,8 að stærð.
Enginn skjálfti mældist í Heklu þessa vikuna og rólegt var á Suðulandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftahrinan sem verið hefur á svæðinu norður af Grindavík undanfarið, en mikið hafði dregið úr undanfarið, tók sig upp á ný að morgni 12. mars. Klukkan 10:26 varð jarðskjálfti sem metin var 5,2 í upphafi en við nánari yfirferð fékk hann stærðina 4,6. Skjálftinn fannst víða um suðvestanvert landið og tilkynningar bárust frá Búðardal, Húsafelli og allt austur á Hvolsvöll. Stærstu eftirskjálftar urðu kl. 18:40 M3,4 og kl.18:42 M3,3 sama dag. Alls voru átta eftirskjálftar yfir þremur stigum. Um 1600 skjálftar mældust út vikuna á þessu svæði, þar af er búið að yfirfara um helminginn. Mesta virknin var þann 12. mars rúmlega 900 skjálftar og hátt í 400 daginn eftir. Úr því fór að draga verulega úr hrinunni. Hrinan sem hófst við Reykjanestá í síðustu viku virðist nú yfirstaðin en tiltölulega rólegt hefur verið á þeim slóðum í þessari viku.
Nokkrir skjálftar mældust við Krýsuvík, allir um og innan við eitt stig.

Norðurland

Mun rólegra var úti fyrir Norðurlandi, um tugur, en í síðustu viku voru þeir um 40. Felstir skjálftarnir voru í Öxarfirði, allir um og innan við tvö stig. Sjö skjálftar voru við Kröflu, stærsti 1,9 að stærð.

Hálendið

Minni virkni var í Vatnajökli í þessari viku (tæplega 40 skjálftar) miðað við þá síðustu, þegar þeir voru 60. Um 10 skjálftar voru undir Bárðarbungu, stærsti 2,5 að stærð þann 15. mars kl. 17:09. Í bergganginum, sem liggur að Holuhrauni, mældust tæplega 10 skjálftar og sex á svæðinu austur af Bárðarbungu, þar sem mælast gjarnan djúpir skjálftar. Allir skjálftarnir voru um og innan við eitt stig. Mun rólegra var við Grímsvötn, tveir skjálftar, miðað við vikuna á undan þegar 20 skjálftar mældust þar. Báðir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Fáeinir litlir skjálftar voru á Lokahrygg og í Öræfajökli.

Sextán smáskjálftar mældsut við Öskju og er það svipaður fjöldi og vikuna á undan. Fimmtán skjálftar voru í Dyngjufjöllum, stærsti rétt innan við tvö stig. Tæplega 200 jarðskjálftar voru við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Skjálftahrina hófst þann 6. mars norðan við Herðubreið og stóð hún fram á næsta dag. Þann 9. mars jókst virknin aftur um tíma en var svo viðvarandi frá 14. mars og út vikuna. Stærsti skjálftinn var 15. mars kl. 05:54, 3,2 að stærð. Annar skjálfti var 2,5 að stærð en aðrir minni.

Mýrdalsjökull

Tæplega tugur skjálfta var staðsettur í Mýrdalsjökli, heldur fleiri en vikuna á undan þegar þeir voru fjórir. Allir skjálftarnir voru í austanverðri Kötluöskjunni, sá stærsti 9. mars kl. 16:43, 1,9 að stærð.
Tveir skjálftar voru í Torfajökulsöskjunni. Stærri skjálftinn var 9. mars kl. 06:43, 2,8 að stærð en hinn var smáskjálfti.

Jarðvakt