| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20200406 - 20200412, vika 15

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 1100 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, álíka margir og í síðustu viku. Enn er mikil virkni á Reykjanesskaga og hefur virkni verið viðvarandi þar það sem af er ári. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,2 að stærð þann 12. apríl kl. 02:31, í Bárðarbunguöskjunni. Einnig varð skjálfti af stærð M3,2 þann 11. apríl kl. 09:55 við Grindavík og bárust Veðurstofunni tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð.
Enginn kjálfti mældist í Heklu.
Suðurland
Fremur rólegt var á Suðurlandi í vikunni, en rúmlega 20 smáskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar 15 skjálftar mældust. Skjálftarnir voru flestir undir einum að stærð og voru dreifðir um beltið. Tíu smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Enginn skjálfti mældist í Heklu en tveir skjálftar mældust í Vatnafjöllum, austan við Heklu, sá stærri M2,6 að stærð þann 9. apríl kl. 10:00:04 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar á Suðurlandi.
Reykjanesskagi
Rúmlega 800 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, en í vikunni á undan mældust þar um 780 skjálftar. Stærsti skjálftinn var 3,2 að stærð þann 11. apríl kl. 09:55 við Eldvörp. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að hann hafi fundist í byggð. Stuttu áður kl. 09:32 varð skjálfti af stærð M2,8 á sömu slóðum.
Langflestir skjálftarnir mældust umhverfis fjallið Þorbjörn þar sem landris hefur verið að undanförnu. Þrír skjálftar mældust við Bláfjöll, sá stærsti M2,1 þann 8. apríl. Aðrir skjálftar voru dreifðir um skagann.
Tæplega 30 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 3,0 að stærð þann 07. apríl kl. 07:25. Engar tilkynningar bárust Veðurstofunni um að hann hafi fundist í byggð.
Norðurland
Tæplega 40 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, nokkuð færri en í vikunni á undan þegar um 70 skjálftar mældust þar. Flestir skjálftarnir mældust í Öxarfirði, allir minni en 1,5 að stærð. Annars var einn skjálfti austur af Grímsey og nokkrir við Flatey á Skjálfanda, allir undir M1,2 að stærð.
Níu jarðskjálftar mældust inni á Norðurlandi, þar af fimm smáskjálftar við Kröflu, tveir við Bæjarfjall og einn í Kelduhverfi.
Hálendið
Rúmlega 180 jarðskjálftar mældust á hálendinu í vikunni, nokkuð fleiri en í fyrri viku þegar um 120 skjálftar mældust. Rúmlega 90 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru um 50. Rúmlega 40 skjálftar mældust í Bárðarbungu, sá stærsti 3,2 að stærð þann 12. apríl kl. 02:31 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Er það nokkuð meiri virkni en í fyrri viku þegar um 10 jarðskjálftar mældust þar. Tæplega 30 skjálftar mældust á djúpa svæðinu suðaustur af Bárðarbungu, þar sem gangurinn beygir til norðausturs, og tveir í ganginum sjálfum. Átta smáskjálftar mældust í Grímsvötnum, stærstur M2,0 að stærð, fjórir mældust við Hamarinn og einn skjálfti mældist í Öræfajökli.
Tæplega 80 jarðskjálftar mældust fyrir norðan Vatnajökul. Rúmlega 20 skjálftar mældust við Öskju, og um 60 smáskjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 2,8 að stærð þann 6. apríl kl. 05:41.
Þrír skjálftar mældust við Langjökul, sá stærsti M1,8 við Prestahnjúk. Einn skjálfti mældist við Jarlhettur og tveir norðan við Sandfell á Haukadalsheiði.
Mýrdalsjökull
Sex jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti 1,2 að stærð. Einn smáskjálfti mældist í Eyjafjallajökli og annar á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt