Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200413 - 20200419, vika 16

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Suðurland

Fremur rólegt var á Suðurlandi í vikunni, en rúmlega tíu smáskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu, nokkuð færri en í síðustu viku þegar tuttugu skjálftar mældust. Skjálftarnir voru flestir undir einum að stærð og voru dreifðir um beltið. Fimm smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Enginn skjálfti mældist í Heklu en stakur skjálfti af stærð 2,3 mældist í Vatnafjöllum, austan við Heklu, þann 18. apríl kl. 12:27 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar á Suðurlandi.

Reykjanesskagi

Um 490 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, færri en vikuna á undan þegar að þeir voru rúmlega 800 talsins. Langflestir skjálftarnir mældust í grennd við Grindavík, eða um 450 talsins og var stærsti skjálftinn 2,3 að stærð þann 15. apríl kl. 23:08. Á Reykjanestá mældust tólf smáskjálftar, átta suðvestan við Kleifarvatn og fimm við Núpshlíðarháls. Enginn skjálfti mældist á Reykjaneshrygg í vikunni.

Norðurland

Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust á norðurlandi í vikunni, þar af um 40 á Tjörnesbrotabeltinu sem svipar til virkni á svæðinu vikuna á undan. Á Húsavíkur-Flateyjar misgengi mældust um tuttugu jarðskjálftar, þar af stærsti skjálfti vikunar í Eyjafjarðardjúpi sem var 2,4 að stærð þann 13. apríl kl. 09:02. Á Grímseyjarbeltinu mældust þrettán skjálftar og voru þeir allir undir 2,0 að stærð. Um 230 km norður á hrygg varð skjálfti af stærð 2,3. Við Miklavatn á Tröllaskaga voru tveir smáskjálftar staðsettir. Átta skjálftar voru staðsettir við Kröflu, fjórir við Þeistareyki og tveir sunnan Bæjarfjalls og voru þeir allir undir 1,0 að stærð.

Hálendið

Við Herðubreið mældust um 60 jarðskjálftar í vikunni og varð virkni mest þann 16. apríl, flestir skjálftarnir voru staðsettir norðvestan megin í Herðubreið og voru þeir allir undir 1,5 að stærð. Fjórtán jarðskjálftar mældust austan Öskju og var stærsti 1,6 að stærð þann 19. apríl. Þá mældust tveir smáskjálftar við Dyngjufjöll.

Stakur skjálfti af stærð 1,3 mældist sunnan við Blöndulón þann 17. apríl kl. 04:34. Þá mældist skjálfti 1,9 að stærð þann 16. apríl um 30 km vestur af Langjökli og annar smáskjálfti um 10 km suður af Langjökli þann 17. apríl. Sitthvor smáskjálfti mældist við Tungnafellsjökul

Um 90 jarðskjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli í vikunni, svipað margir og vikuna á undan. Tveir skjálftar af stærð 1,9 og 0,4 voru staðsettir í Kverkfjöllum Um 30 jarðskjálftar mældust í og við Bárðarbunguöskjuna og voru þeir allir undir 1,6 að stærð. Í bergganginum mældust 36 jarðskjálftar, 30 á djúpa svæðinu þar sem að hann beygir til norðurs og sex undir Dyngjujökli og var virknin í Bárðarbungukerfinu svipuð og vikuna á undan. Í Grímsvötnum mældust sex skjálftar, allir undir 2,0 að stærð og var virknin svipuð og vikuna á undan. Við Vestari Skaftarketil mældist einn smáskjálfti. Tíu jarðskjálftar voru staðsettir í Öræfajökli og mældist stærsti skjálftinn 2,4 að stærð þann 19. apríl kl. 14:01, honum varð vart í Skaftafelli. Aðeins einn smáskjálfti mældist í Öræfajökli vikuna á undan. Sitthvor smáskjálfti var staðsettur annars vegar ofan Morsárjökuls og við Vöttur í Skeiðarárjökli.

Mýrdalsjökull

Fimm jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti 1,2 að stærð og var virknin svipuð og vikuna á undan. Stakur skjálfti af stærð 1,0 mældist vestan við Hrafntinnusker.

Jarðvakt