Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200420 - 20200426, vika 17

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 540 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 730. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 4,8 að stærð og varð skömmu fyrir kl. 4 aðfararnótt mánudagsins 20. apríl í norðaustanverðri Bárðarbunguöskjunni. Samtals mældust 25 skjálftar í Bárðarbunguöskjunni í vikunni, auk þess sem þrettán skjálftar mældust skammst austan hennar. Áfram er nokkur skjálftavirkni á Reykjanesskaga, en þar mældust um 250 skjálftar í vikunni, þó hefur dregið nokkuð úr virkninni miðað við síðustu vikur. Meirihluti jarðskjálftanna á Reykjanesskaga var í nágrenni við Grindavík, eða um 190. Allir skjálftarnir á því svæði voru undir 2,0 að stærð.

Suðurland

Á suðurlandsbrotabeltinu mældust 26 smáskjálftar dreift um svæðið í vikunni, aðeins fleiri samanborið við síðustu viku þegar þeir voru 10. Um 20 smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu í vikunni, langflestir þeirra urðu skömmu eftir miðnætti þann 23. apríl. Þeir voru staðsettir í kringum Húsmúla skammt norðan Hellisheiðarvirkjunar. Tveir smáskjálftar af stærð 0,2 og 0,6 voru staðsettir í Heklu í vikunni.

Reykjanesskagi

Um 250 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, nokkuð færri en vikuna á undan þegar þeir voru yfir 800. Flestir skjálftanna voru staðsettir í kringum Grindavík eða um 190. Aðrir skjálftar dreifðu sér nokkuð jafnt á svæðið frá Reykjanestá að Kleifarvatni að undanskildu svæðinu í kringum Grindavík. Tveir skjálftar að stærð 1,9 við suðurenda Kleifarvatns voru stærstu skjálftar vikunnar á Reykjanesskaga. Rétt utan við Reykjanestá voru sjö smáskjálftar staðsettir og einn skammt frá Eldey.

Norðurland

Hátt í 90 skjálftar voru staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru um 50. Af þessum 90 skjálftum voru tæplega 60 þeirra staðsettir á Grímseyjarbeltinu, þar sem stærsti skjálftinn mældist 2,7 að stærð. Þá voru um 30 skjálftar staðsettir á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu þar sem stærsti skjálftinn var 2,3 að stærð.

Tveir smáskjálftar voru staðsettir við Kröflu, þrír við Þeistareyki, fimm SV við Ásbyrgi og einn í Kelduhverfi.

Hálendið

Í kringum Öskju mældust tæplega 20 skjálftar, allir undir 1,0 að stærð, sem er svipuð virkni og í síðustu viku. Tveir smáskjálftar voru einnig staðsettir norðan við Dyngjufjöll og einn skjálfti við Dyngjufjöll Ytri. Rúmlega 20 skjálftar voru staðsettir við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 1,2 að stærð. Það eru nokkuð færri skjálftar miðað við síðustu viku þegar þeir voru um 60. Einnig mældust þrír smáskjálftar við Kollóttudyngju NV við Herðubreið. Í Tungnafellsjökli mældust þrír skjálftar, allir undir 1,0 að stærð.

Tæplega 80 jarðskjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli í vikunni, en í síðustu viku voru þeir um 90. Í öskju Bárðarbungu voru 26 skjálftar staðsettir í vikunni, þar var stærsti skjálftinn 4,8 að stærð sem var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Þetta er stærsti skjálftinn á svæðinu síðan í janúar 2020 og jafnframt með stærstu skjálftum þar síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk í febrúar 2015. Skammt austan við Bárðarbungu voru staðsettir 13 djúpir jarðskjálftar (15-22 km dýpi) og í bergganginum undir Dyngjujökli voru sex smáskjálftar staðsettir. Þrettán skjálftar voru staðsettir í og í kringum Grímsvötn, sá stærsti 1,9 að stærð. Það eru nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru 5. Átta skjálftar voru staðsettir á Lokahrygg, sá stærsti 1,7 að stærð. Tveir smáskjálftar voru einnig staðsettir nokkuð norðan við Lokahrygg. Í kringum Öræfajökul voru staðsettir sex smáskjálftar og tveir stakir smáskjálftar í Esjufjöllum og Kverkfjöllum.

Einn stakur skjálfti að stærð 1,3 mældist sunnan Langjökuls, og skammt sunnan við Skjaldbreiður voru 4 jarðskjálftar staðsettir, sá stærsti 1,4 að stærð.

Mýrdalsjökull

Sex jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn þar mældist 2,7 að stærð og varð snemma morguns þann 25. apríl. Aðrir skjálftar á svæðinu voru undir 1,0 að stærð. Enginn skjálfti mældist í Torfajökulseldstöðinni.

Jarðvakt