Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200504 - 20200510, vika 19

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 670 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, aðeins fleiri en vikuna áður þegar að þeir voru um 520 talsins. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,7 að stærð þann 5. maí, um 11 km suður af Árnesi. Áfram er virkni á Reykjanesskaga þar sem mældust um 350 skjálftar, flestir við Reykjanestá. Landrisi við Þorbjörn virðist lokið þótt enn mælist landbreytingar á svæðinu. Smáhrina um 100 skjálfta mældist við Herðubreið dagana 8.-9. maí. Um 20 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli og var sá stærsti 2,5 að stærð. Enginn skjálfti mældist í Heklu og tveir smáskjálftar mældust í Öræfajökli.

Suðurland

Tæplega 50 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni. Stærsti skjálftinn var 2,7 að stærð kl. 12:18 um 11 km suður af Árnesi, nánar tiltekið í Landi, vestan við Ytri-Rangá á Suðurlandi. Um tugur skjálfta mældist á Hengilssvæðinu. Aðrir skjálftar dreifðust um Suðurlandsbrotabeltið, þó í þyrpingum sums staðar. Flestir skjálftanna voru innan við 1 að stærð.

Reykjanesskagi

Um 350 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í liðinni viku. Flestir voru þeir í nágrenni Reykjanestáar, eða tæplega 240. Tveir skjálftar mældust 2,3 að stærð og voru það stærstu skjálftarnir á svæðinu. Þeir voru þann 6. maí kl. 00:49 við Grindavík og 9. maí kl. 07:48 við Reykjanestá. Tvær tilkynningar bárust um að skjálftinn 6. maí hafi fundist í Grindavík. Aðrir skjálftar dreifðust um brotabelti skagans, að undanskilinni einni þyrpingu frá Grindavík að Fagradalsfjalli, og annarri við Sandfell.

Norðurland

Rúmlega 40 skjálftar mældust á Norðurlandi í vikunni, flestir á Tjörnesbrotabeltinu. Stærsti skjálftinn mældist 2,3 að stærð þann 7. maí á Eyjafjarðardjúpi. Tveir skjálftar mældust í Kröflu og tveir við Þeistareyki.

Hálendið

Tæplega 200 skjálftar mældust á Hálendinu í liðinni viku, og var sá stærsti um 2,4 að stærð við Herðubreið. Þar mældust rúmlega 100 skjálftar í smáhrinu sem stóð yfir dagana 8.-9. maí. Um 20 skjálftar mældust við Öskju og mældust einnig nokkrir skjálftar í og við Herðubreiðartögl. Tæplega 60 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Sjö skjálftar mældust í Bárðarbunguöskjunni og tæplega 20 skjálftar í bergganginum undir Dyngjujökli. Einn skjálfti mældist í Kverkfjöllum, um tylft skjálfta mældist á Lokahrygg og svipaður fjöldi í Grímsvötnum. Tveir skjálftar mældust í Öræfajökli í vikunni. Þrír skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu og fimm skjálftar í Geitlandsjökli.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 20 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, og var sá stærsti 2,5 að stærð þann 7. maí kl. 04:12. Flestir aðrir skjálftar voru undir 2 að stærð og voru að mestu innan Kötluöskjunnar, en einnig mældust nokkrar í Kötlujökli.

Jarðvakt