| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20200525 - 20200531, vika 22

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Tæplega 590 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar um 510 jarðskjálftar voru staðsettir.
Flestir jarðskjálftar voru á Reykjanesi og við Öskju og Herðubreið. Virknin heldur þó áfram á Reykjanesi þar sem rúmlega 400 jarðskjálftar mældust í vikunni, flestir við Grindavík en vísbendingar eru um að landris sé hafið þar að nýju, þó hægar en áður var.
Minni virkni var á Norðurlandi og undir Mýrdalsjökli en í síðustu viku. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,5 að stærð í Bárðarbunguöskjunni, þann 30. maí kl. 01:20:55. Þrír jarðskjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti 1,5 að stærð og einn í Öræfajökli, M1,1 að stærð.
Einn smáskjálfti mældist við Heklu í vikunni.
Suðurland
Um 10 jarðskjálftar voru staðsettir vítt og breitt á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, allir undir M1,0 að stærð. Er þetta minni virkni en í síðustu viku þegar rúmlega 30 jarðskjálftar mældust. Rúmlega 10 skjálftar voru staðsettir á Hengilssvæðinu, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 31. maí, við SV-verðan Hengil. Einn skjálfti mældist í nágrenni Heklu, suðaustanmegin, M0,8 að stærð þann 29. maí kl. 11:16.
Reykjanesskagi
Rúmlega 440 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, tvöfalt fleiri en í vikunni á undan þegar um rúmlega 200 jarðskjálftar mældust þar. Af þeim voru um 400 við Grindavík. Aðrir skjálftar dreifðust um skagann. Stærsti skjálftinn á svæðinu var M2,5 að stærð, norðaustan við Grindavík, þann 31. maí kl. 00:25. Bárust tilkynningar um að hann hafi fundist í Grindavík. Tæplega 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 25. maí.
Norðurland
Um 20 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Skjálftarnir voru staðsettir vítt og breitt. Stærsti skjálfti var á Grímseyjarbeltinu M1,6 að stærð. Fimm jarðskjálftar mældust við Kröflu, og einn smáskjálfti mældist við Bæjarfjall og annar við Bjarnarflag.
Hálendið
Rúmlega 70 jarðskjálftar mældust á Hálendinu í vikunni, rúmlega helmingi færri en í síðustu viku, þegar tæplega 160 skjálftar mældust. Rúmlega 10 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, umtalsvert færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 40. Einungis 3 skjálftar mældust í Bárðarbungu í vikunni, sá stærsti var 3,5 að stærð, þann 30. maí kl. 01:20 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Í vikunni mældist hvorki skjálfti á svæði suðaustur af Bárðarbunguöskjunni, þar sem oft mælast djúpir jarðskjálftar og berggangurinn beygir til norðausturs, né undir og við Dyngjujökul.
Þrír skjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti 1,5 að stærð. Einn smáskjálfti mældist við Hamarinn og tveir á Lokahrygg. Einn skjálfti mældist í öskju Öræfajökuls, M1,1 að stærð.
Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust norðan Vatnajökuls, helmingi færri en í síðustu viku þegar um 100 jarðskjálftar mældust þar. Langflestir mældust við Öskju og restin við Herðubreið og Herðubeiðartögl en einnig sunnan við Upptyppinga og þar varð stærsti skjálftinn, M1,7 að stærð þann 28. maí.
Tveir jarðskjálftar mældust í suðvestanverðum Langjökli, sá stærsti 2,2 að stærð, þann 26. maí. Einn skjálftar, af stærð M1,5 mældist suðaustan við Skjaldbreið, þann 26. maí.
Mýrdalsjökull
Sjö jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, færri en í síðustu viku þegar rúmlega 10 skjálftar mældust. Allir voru skjálftarnir undir M1,5 að stærð. Flestir skjálftar voru staðsettir innan öskjunnar sjálfrar.
Þrír smáskjálftar mældust við Torfajökul.
Jarðvakt