Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200601 - 20200607, vika 23

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 1200 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, um tvöfalt fleiri en vikuna á undan. Þrátt fyrir þennan fjölda hefur tekist að yfirfara nánast alla skjálftana. Jarðskjálftahrinan við Grindavík stendur enn yfir og hefur mesta virknin á landinu verið á því svæði. Um 700 jarðskjálftar mældust þar í liðinni viku, að mestu smáskjálftar. Stærsti skjálftinn í hrinunni var 2,7 að stærð, þann 2. júní. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,8 að stærð þann 2. júní úti fyrir Reykjanestá. Smáhrina var við Hveragerði þann 6. júní og fundust þrír skjálftar í bænum. Tveir skjálftar mældust í Heklu og um tugur í Grímsvötnum. Einn skjálfti mældist í Öræfajökli.

Suðurland

Rúmlega 40 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni, flestir þeirra voru hluti af hrinu í nágrenni Hveragerðis þann 6. júní. Stærsti skjálfti hrinunnar var 2,2 að stærð kl. 14:07 og fannst hann í Hveragerði. Einnig fundust tveir aðrir skjálftar í bænum sem voru 1,7 og 1,8 að stærð, kl. 9:16 og 9:27. Aðrir skjálftar voru á Hengilssvæðinu og Suðurlandsbrotabeltinu en tveir skjálftar mældust í Vatnafjöllum og tveir smáskjálftar í Heklu.

Reykjanesskagi

Um 970 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni og voru flestir þeirra hluti af jarðskjálftahrinunni sem stendur yfir í nágrenni Grindavíkur þar sem rúmlega 700 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn í nágrenni Grindavíkur var M2,7 að stærð þann 2. júní kl. 17:58 en hann var við Bláa lónið. Einnig var smáhrina við Fagradalsfjall þar sem um 160 skjálftar mældust, allir undir 2 að stærð. Aðrir skjálftar dreifðust um Reykjanesskagann. Um 40 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg í liðinni viku og var sá stærsti 2,8 að stærð þann 2. júní kl 02:03, rétt út fyrir Reykjanestá. Hann var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar.

Norðurland

Um 30 jarðskjálftar mældust á Norðurlandi í vikunni, svipaður fjöldi og í síðustu viku. Af þeim voru um 20 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu norður af landi og voru þeir allir undir 2 að stærð. Sex smáskjálftar mældust við Þeistareyki og fjórir skjálftar mældust í nágrenni Reykjahlíðar.

Hálendið

Tæplega 100 skjálftar mældust á hálendinu í liðinni viku. Norðan Vatnajökuls mældust um 60 skjálftar, allir undir 2 að stærð. Virknin var aðallega bundin við nágrenni Öskju og Herðubreiðar. Undir Vatnajökli mældust um 40 skjálftar. Tæpur tugur mældist í Bárðarbunguöskjunni og sex skjálftar í ganginum undir Dyngjujökli. Um tugur skjálfta mældist í Grímsvötnum, og var sá stærsti 1,6 að stærð þann 5. júní. Einnig mældust nokkrir skjálftar á Lokahrygg, einn í Kverkfjöllum og einn í Esjufjöllum. Einn skjálfti mældist í Öræfajökli.

Einn skjálfti mældist suðvestan við Skjaldbreið, einn sunnan við Hagavatn og einn skjálfti í Torfajökli.

Mýrdalsjökull

Einungis sex jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, svipað og í síðustu viku. Allir voru þeir undir M1,0 að stærð. Flestir skjálftar voru staðsettir innan öskjunnar sjálfrar en tveir mældust í Kötlujökli.

Jarðvakt