Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200706 - 20200712, vika 28

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 3100 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun færri en vikuna á undan þegar um 4300 jarðskjálftar voru staðsettir. Ekki hefur unnist tími til að yfirfara alla skjálftana en um 1100 jarðskjálftar eru yfirfarnir. Langflestir skjálftarnir eða um 1400, þar af 500 yfirfarnir, voru í hrinunni við mynni Eyjafjarðar sem hófst þann 19. júní og er enn yfirstandandi. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,2 að stærð þann 8. júlí kl. 17:41 og fannst víða í byggð. Sjö skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í vikunni, flestir í hrinunni fyrir norðan. Jarðskjálftavirkni heldur einnig áfram á Reykjanesskaga, en rúmlega 1300 jarðskjálftar mældust þar í vikunni, þar af 400 yfirfarnir. Stærsti skjálftinn þar var 3,3 að stærð, 3,4 km NA af Grindavík þann 9. júlí kl 16:12 og fannst hann á svæðinu. Þrír smáskjálftar mældust í Heklu í vikunni og Tveir skjálftar mældust við Grímsvötn, sá stærsti 1,9 að stærð.

Suðurland

Tæpelaga 60 skjálftar mældust vítt og breytt á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, mun fleiri en í vikunni á undan þegar þeir voru 17, þar af voru um 20 skjálftar á Hengilssvæðinu. Stærsti skjálfti mældist 2,2 að stærð þann 8. júlí kl. 08:00 á Hellisheiði. Þrír smáskjálftar mældust í Heklu.

Reykjanesskagi

Rúmlega 1300 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, af þeim eru 400 yfirfarnir. Í síðustu viku mældust um 1060 jarðskjálftar á svæðinu. Stærsti skjálftinn var 3,3 að stærð 3,4 km NNA af Grindavík þann 9. júlí kl 16:12 og fannst hann á svæðinu. Skjálftavirknin var dreifð um skagann, en langmesta virknin var NA af Grindavík. Jarðskjálftavirknin á Reykjanesi er áframhaldandi frá fyrri vikum og orsakast af kvikuinnskotum undir jarðskorpunni með miðju rétt vestan við fjallið Þorbjörn. Um 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, álíka margir sem og í síðustu viku þegar 20 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn þar var 3,0 að stærð, þann 9. júlí.

Norðurland

Jarðskjálftahrinan sem hófst við mynni Eyjafjarðar þann 19. júní er enn yfirstandandi, en aðeins hefur dregið úr henni. Rúmlega 1400 jarðskálftar hafa mælst á svæðinu í vikunni og búið er að fara yfir um 500 af þeim. Flestir skjálftarnir eru vestast á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, eða um 1270 skjálftar. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,2 að stærð þann 8. júlí kl. 17:41 og fannst víða í byggð. Þrír skjálftar voru yfir 3,0 að stærð, sá stærsti var 3,5 að stærð 6. júlí kl 18:34. Tæplega 10 skjálftar mældust á Gímseyjarbeltinu, sá stærsti 1,7 að stærð. Tíu smáskjálftar mældust í Axarfirði. Um 40 skjálftar, allir minni en 1,5 að stærð mældust milli Flatey og Húsavík.

Hálendið

Tæplega 200 jarðskjálftar mældust á Hálendinu í vikunni, mun fleiri en í síðustu viku þegar um 140 skjálftar mældust. Undir Vatnajökli mældust tæplega 50 skjálftar, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar 30 mældust. Fimm skjálftar mældust við Bárðarbungu, sá stærsti 2,0 að stærð. Um 15 skjálftar mældust við djúpa svæðið í ganginum út frá Bárðarbungu. Fjórir smáskjálftar mældust í ganginum við Dyngjujökul. Tveir skjálftar mældust við Grímsvötn, sá stærsti 1,9 að stærð. Einn smáskjálfti mældist í Öræfajökli. Um átta smáskjálftar mældust við Öskju í vikunni, allir undir 1,5 að stærð. Sjö smáskjálftar mældust við Dyngjufjöll Ytri, vestan við Öskju. Rúmlega 120 jarðskjálftar (þar af helmingurinn yfirfarnir) mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 3,2 að stærð þann 10. júlí kl. 14:15. Tveir aðrir skjálftar að stærð 3,1 og 3, 0 mældust á sama svæði. Við Mývatn og Kröflu mældust tveir smáskjálftar. Tveir skjálftar mældust í Langjökli, einn í Geitlandsjökli og einn um 15 km NA af Geitlandsjökli og tveir smáskjálftar mældust við Skjaldbreiður.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 15 smáskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, nokkrir færri en í síðustu viku þegar 18 skjálftar mældust. Skjálftarnir voru flestir innan við eða í kringum Kötluöskjuna. Einn smáskjálfti mældist í Eyjafjallajökli. Fjórir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Jarðvakt