Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200720 - 20200726, vika 30

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 5200 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, ríflega helmingi fleiri en vikuna á undan þegar um 2500 jarðskjálftar voru staðsettir. EFlestir skjálftar vikunnar voru á Reykjanesskaga í tveimur þyrpingum, önnur nærri Þorbirni og tengd landrisi og kvikuinnskotum sem þar hafa átt sér stað og hin í hrinu við Fagradalsfjall sem hófst að kvöldi 19. júlí. Einnig mældist ennþá töluverður fjöldi skjálfta í hrinunni við mynni Eyjafjarðar sem hófst þann 19. júní. Ekki hefur unnist tími til að yfirfara alla skjálftana en um 1140 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir. Enn er eftir að yfirfara þúsundir jarðskjálfta þessa vikuna og þó ávallt sé reynt að yfirfara skjálfta sem verða á svæðum utan við hrinuvirkni þá er nokkuð víst að enn sé eftir að yfirfara skjálfta um allt land, sér í lagi frá 20. júlí. Alls mældust ríflega 2000 skjálftar við Fagradalsfjall og hafa ríflega 400 verið yfirfarnir. Við mynni Eyjafjarðar mældust um 600 skjálftar og hefur helmingur þeirra verið yfirfarinn. Um 1000 skjálftar mældust nærri Þorbirni og hafa um 150 þeirra verið yfirfarnir. Stærsti skjálfti vikunnar mældist rétt vestan við Fagradalsfjall M5,0 að stærð þann 20. júlí kl. 06:23. Annar skjálfti af stærð M4,6 mældist kl. 05:46 á svipuðum slóðum sama morgun. Í heildina mældust 27 skjálftar stærri en M3, allir nema einn við Fagradalsfjall. Skjálfti af stærð M3,3 mældist í Mýrdalsjökli kl. 05:36 þann 23. júlí. Einn smáskjálfti mældist í Heklu rétt undir M0,5 að stærð. Þrír smáskjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti M1,4.

Suðurland

Fimm skjálftar hafa verið yfirfarnir með upptök á Suðurlandi. Sá stærsti var M1,6 um 20 km suðvestan við Heklu. Enn er eftir að yfirfara skjálftaskráningar þann 20. og 21. júlí þ.a. hugsanlega bætast við listann skjálftar með upptök við Suðurland.

Reykjanesskagi

Jarðskjálftakerfið skráði samtals 4300 jarðskjálfta á Reykjanesskaganum í vikunni. Búið er að yfirfara um 750 þeirra. Áköfust var virknin vestan við Fagradalsfjall en þar hófst jarðskjálftahrinu í viku 29. Virnin er mest á afmörkuðu 7 km löngu belti frá Fagradalsfjalli og til vesturs sem liggur í VSV-ANA stefnu og er syðri endi beltisins um 5 km NA af Grindavík. Alls mældust ríflega 2000 skjálftar við Fagradalsfjall og hafa ríflega 400 verið yfirfarnir. Tveir stærsti skjálftarnir í hrinunni urðu kl. 5:46 og 6:23 og urðu M4,6 og M5,0. Veðurstofunni bárust tilkynningar víða að frá Suður- og Vesturlandi. Skjálftavirknin er nokkuð vel afmörkuð og þá helst í tveimur þyrpingum, önnur við Þorbjörn og hin við Fagradalsfjall en einnig mælast skjálftar við Kleifarvatn, Krýsuvík og nokkur virkni við Reykjanestá. Jarðskjálftavirknin við Þorbjörn er áframhaldandi frá fyrri vikum og orsakast af kvikuinnskotum undir jarðskorpunni með miðju rétt vestan við fjallið. Ekki er ósennilegt að virkni við Fagradalsfjall orsakist af aukinni spennu á svæðinu vegna ítrekaðrar innskotavirkni. Ellefu jarðskjálftar hafa verið staðsettir á Reykjaneshrygg, flestir nálægt landi.

Norðurland

315 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir í vikunni með upptök í Tjörnesbrotabeltinu, þar af 306 í Eyjafjarðarálnum og á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Jarðskjálftahrinan sem hófst við mynni Eyjafjarðar þann 19. júní var enn í gangi í vikunni og hélst nokkuð jöfn út vikuna og á svipuðum slóðum og undanfarnar vikur. Stærstu skjálftarnir mældust úti fyrir mynni Eyjafjarðar þann 22. júlí og voru 2.7 og 2.8 að stærð.

Hálendið

Ríflega 30 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir á Hálendinu í vikunni, flestir í norðurhluta Vatnajökuls eða norðan við Vatnajökul. Einn skjálfti mældist við öskju Bárðarbungu, 1,3 að stærð. Þrír skjálftar mældust við Grímsvötn, sá stærsti 1,4 að stærð. Sjö smáskjálftar mældust í Öræfajökli. 12 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir við Öskju, Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti M1,6 að stærð.

Mýrdalsjökull

Búið er að yfirfara 45 skjálfta í Mýrdalsjökli í vikunni. Skjálftarnir dreifa sér um Kötluöskjuna og eru líklega til marks um aukið aðgengi að bræðsluvatni sem fylgir þessu árstíma. Stærsti skjálftinn mældist M3,3 þann 23. júlí kl. 5:36 rétt vestan við Austmannsbungu. Á sama tíma og skjálftavirkni hefur aukist í Mýrdalsjökli hefur leiðni í Múlakvísl hækkað og sömuleiðis mælist meira jarðhitagas við Láguhvola.

Jarðvakt