Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200727 - 20200802, vika 31

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í 1200 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, töluvert færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 5200. Þrátt fyrir fækkun á milli vikna í fjölda jarðskjálfta er fjöldinn þó enn yfir meðal virkni. Stærstu skjálftar vikunnar voru 3,4 að stærð og urðu í Mýrdalsjökli að morgni 27. júlí og við Fagradalsfjall 31. júlí. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að báðir skjálftarnir hafi fundist í byggð. Skjálftinn í Mýrdalsfjökli er stærsti skjálfti sem mælst hefur þar síðan í ágúst 2018. Líkt og síðustu vikur eru enn í gangi jarðskjálftahrinur á Reykjanesskaga og úti fyrir mynni Eyjafjarðar en þó hefur dregið töluvert úr virkni á báðum stöðum. Í vikunni mældust um 660 skjálftar á Reykjanesskaga eða rúmlega helmingur allra skjálfta á landinu. Stærstu skjálftarnir á Reykjanesskaga í vikunni voru 3,4 og 3,0 að stærð og voru þeir báðir staðsettir við austanvert Fagradalsfjall, en á því svæði og svæðinu norðan við Grindavík var stærstur hluti skjálftanna sem mældust á Reykjanesskaga staðsettur. Rúmlega 270 skjálftar urðu í hrinunni úti fyrir mynni Eyjafjarðar og þar var stærsti skjálftinn 2,9 að stærð. Einn smáskjálfti af stærð 0,3 mældist í Heklu og átta skjálftar í Grímsvötnum, sá stærsti 1,3 að stærð.

Suðurland

Á Suðurlandsbrotabeltinu mældust 27 smáskjálftar á víð og dreif um svæðið, sá stærsti 1,3 að stærð. Í síðustu viku voru fimm yfirfarnir skjálftar á svæðinu. Einn smáskjálfti, 0,3 að stærð, mældist í Heklu og annar um 5 km vestan við fjallið, 0,5 að stærð. Á Hengilssvæðinu mældust 25 skjálftar flestir í tveimur þyrpingum, S við Nesjavallavirkjun og og NV við Dyrafjöll. Stærstu skjáfltarnir voru 2,2 og 2,1 að stærð um 2 km S við Nesjavallavirkjun.

Reykjanesskagi

Um 660 jarðskjálftar mældust á Reykanesskaga í víkunni, töluvert færri en í vikunni á undan en þá hófst öflug jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall sem stendur enn, þó dregið hafi töluvert úr virkninni. Rúmlega 260 af skjálftunum voru staðsettir á N-S sprungu við austanvert Fagradalsfjall. Þar mældust stærstu skjálftar vikunnar á Reykjanesskaga 3,4 og 3,0 að stærð. Svipaður fjöldi skjálfta mældist í kringum fjallið Þorbjörn norðan Grindavíkur. Jarðskjálftavirknin við Þorbjörn er áframhaldandi frá fyrri vikum og orsakast af kvikuinnskotum undir jarðskorpunni með miðju rétt vestan við fjallið. Ekki er ósennilegt að virkni við Fagradalsfjall orsakist af aukinni spennu á svæðinu vegna ítrekaðrar innskotavirkni. Um 20 smáskjálftar mældust við Kleifarvatn og vestan þess í Sveifluhálsi og um 15 smáskjálftar á svæðinu við Reykjanestá. Tíu skjálftar voru staðsettir úti á Reykjaneshrygg, sá stærsti 1,7 að stærð.

Norðurland

Rétt rúmlega 300 jarðskjálftar voru staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, þar af um 270 úti fyrir mynni Eyjafjarðar þar sem jarðskjálftahrina hefur verið í gangi síðan 19. júní. Stærsti skjálftinn í hrinunni í síðustu viku var 2,9 að stærð en jafnt og þétt hefur dregið úr virkni á svæðinu undanfarið. Níu skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu og tíu á austurhluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins á Skjálfanda. Þrír smáskjálftar mældust við Kröflu og stakur skjálfti í Kelduhverfi.

Hálendið

Tæplega 40 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, sá stærsti 2,1 að stærð við Eystri-Skaftárketilinn. Sjö smáskjálftar mældust í og við öskju Bárðarbungu og þann 29. júlí mældust 5 djúpir jarðskjálftar austan við öskjuna, á svæði þar sem djúpir jarðskjálftar verða regulega. Í og við Grímsvötn voru níu jarðskjálftar staðsettir þessa vikuna, sá stærsti 1,3 að stærð. Í vikunni á undan mældust þar þrír skjálftar. Þrír skjálftar mældust í Öræfajökli, fjórir í Kverkfjöllum og þrír undir Dyngjujökli. Stakir skjálftar urðu við Hamarinn og Tungnafellsjökul og tveir smáskjálftar í SV-verðum Vatnajökli. Í austurhluta Öskju mældust 24 skjálftar og 40 við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Tveir skjálftar mældust í Geitlandsjökli, sá stærri 1,7 að stærð og síðan mældist stakur skjálfti að stærð 1,2 í Hvítársíðu vestan Langjökuls. Tveir skjálftar, báðir að stærð 1,0 urðu skammt austan við Skjaldbreiður.

Mýrdalsjökull

Tólf jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, nokkuð færri en í síðustu vikur þegar þeir voru 45. Stærsti skjálftinn á landinu í vikunni var 3,4 að stærð og varð í NV-verðri Kötluöskjunni. Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli hefur aukist lítillega síðustu vikur en skjálftarnir dreifa sér um Kötluöskjuna og eru líklega til marks um aukið aðgengi að bræðsluvatni sem fylgir þessu árstíma. Fimm skjálftar urðu í vestanverðri Torfajökulsöskjunni í vikunni, sá stærsti 1,9 að stærð í Reykjadölum.

Jarðvakt