Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200803 - 20200809, vika 32

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Yfir 1000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, heldur færri en í síðustu viku þegar þeir voru hátt í 1200. Skjálftahrinan sem verið hefur fyrir mynni Eyjafjarðar frá því í júní stendur enn en virknin er breytileg eftir vikum. Á því svæði varð stærsti skjálfti vikunnar, 4,6 að stærð þann 8. ágúst. Skjálftinn fannst víðsvegar um Norðurland. Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er heldur minni í þessari viku en síðustu viku. Skjálftahrina hófst við Kleifarvatn síðdegis 9. ágúst. Stærsti skjálftinn, 2,9 að stærð, fannst í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og á Seltjarnarnesi.

Suðurland

Um 30 jarðskjálftar urðu á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, stærstu um tvö stig. Hátt í 20 smáskjálftar mældust á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Rúmlega 300 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, mun færri en í fyrri viku þegar á sjöundahundrað skjálfta mældist. Um 100 skjálftar urðu norður af Grindavík, umtalsvert færri en í liðinni viku. Flestir skjálftarnir voru um og innan við eitt stig. Dregið hefur úr virkni við Fagradalsfjall en þar mældust um 50 smáskjálftar miðað við 260 vikuna á undan.
Ríflega 100 jarðskjálftar mældust við Kleifarvatn en þar hófst skjálftahrina, undir kvöld, 9. ágúst. Stærsti skjálftinn varð kl. 20:22, 2,9 að stærð. Nokkrir aðrir voru yfir tveimur stigum en aðrir mun minni. Tilkynningar bárust frá Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Seltjarnarnesi um að stærsti skjálftinn hefði fundist þar. Hrinan er enn í gangi þegar þetta er skrifað.
Tæplega 20 skjálftar voru við Reykjanestá, stærsti um tvö stig og fáeinir á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Hátt í 600 skjálftar voru úti fyrir Norðurlandi og er það mun meiri virkni en í liðinni viku þegar þeir voru um 300. Líkt og undanfarnar vikur var mesta virknin úti fyrir mynni Eyjafjarðar, þar sem skjálftahrina hófst þann 19. júní. Hrinan stendur enn en virknin er breytileg eftir vikum. Í þessari viku voru um 500 skjálftar á þessum slóðum en tæplega 300 í síðustu viku. Stærsti skjálftinn varð 8. ágúst kl. 03:42, 4,6 að stærð og er það fimmti stærsti skjálfti á þessu svæði frá því að hrinan hófst. Tilkynningar bárust viðsvegar af Norðurlandi um að skjálftinn hefði fundist.
Flestir aðrir skjálftar voru í Grímseyjarbeltinu.

Hálendið

Á annan tug skjálfta mældist undir Vatnajökli, mun færri en í fyrri viku þegar um 40 skjálftar voru á svæðinu. Skjálftarnir dreifðust nokkuð milli svæða í jöklinum. Tveir skjálftar náðu tveimur stigum, annar í Öræfajökli en hinn í norðurhluta Bárðarbunguöskjunnar.
Tæplega 20 skjálftar urðu á svæðinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl, stærsti tæp tvö stig. Nokkrir smáskjálftar voru við Öskju
Tveir litlir jarðskjálftar voru í vestanverðum Langjökli og einn í Þórisjökli.

Mýrdalsjökull

Nokkrir skjálftar mældust innan Kötluöskjunnar og í vestanverðri Torfajökulsöskjunni. Stærstu skjálftar voru um tvö stig á báðum þessum svæðum.

Jarðvakt