Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200817 - 20200823, vika 34

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 1300 jarðskjálftar mældust með sjálfvirka SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni og af þeim eru 1030 yfirfarnir. Þetta eru heldur færri skjálftar en í síðustu viku þegar um 1660 skjálftar mældust. Munar þar mestu um heldur færri skjálfta fyrir norðan og á Reykjanesi. Jarðskjálftahrinan fyrir norðan stendur þó enn og mældust tæplega 790 skjálftar þar í vikunni. Virknin á Reykjanesi heldur einnig áfram og mældust tæplega 300 jarðskjálftar þar. Einn skjálftinn fannst í byggð, þann 21. ágúst kl 01:37 varð jarðskjálfti 2,8 að stærð um 7 km SSA af Helgafelli og bárust tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist á Höfuðborgarsvæðinu. Hrina um 85 skjálfta varð á Grímseyjarbeltinu, rúmlega 30 km VNV af Kópaskeri þann 21. ágúst. Stærsti skjálfti vikunnar varð í þeirri hrinu, 3,2 að stærð kl 11:50. Engar tilkynningar bárust um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Einn skjálfti mældist í Grímsvötnum í vikunni og einn við Heklu. Vegna tölvubilunar hafa skjálftar frá 21. ágúst kl 23:30 til 22. ágúst kl 13:30 ekki verið að fullu yfirfarnir.

Suðurland

Tuttugu smáskjálftar mældust vítt og breitt um Suðurlandsbrotabeltið í vikunni, heldur færri en í síðustu viku þegar um 30 skjálftar mældust. Níu smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu og einn við Heklu.

Reykjanesskagi

Tæplega 300 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, mun færri en í síðustu viku þegar um 390 jarðskjálftar mældust þar. Um 200 skjálftar hafa verið yfirfarnir. Skjálftarnir dreifðust um skagann, en flestir voru við fjallið Þorbjörn. Stærstu skjálfarnir voru 2,8 að stærð, sá fyrri var 21. ágúst kl 01:37 um 7 km SSA af Helgafelli og fannst hann á Höfuðborgarsvæðinu. Sá seinni var 23. ágúst kl 03:40 tæpa 7 km austur af Keili. Fjórtán skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 1,8 að stærð.

Norðurland

Rúmlega 900 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, af þeim eru tæplega 740 yfirfarnir. Þetta eru mun færri skjálftar en vikuna á undan þegar 1200 skjálftar mældust. Flestir skjálftanna voru á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og í Eyjafjarðarál, eða tæplega 790 skjálftar. Stærsti skjálftinn var 2,6 að stærð. Um 110 skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu, þar af um 85 í hrinu rúma 30 km VNV af Kópaskeri þann 21. ágúst. Stærsti skjálftinn í hrinunni var 3,2 að stærð kl 11:50 og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Engar tilkynningar bárust um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Fjórir skjálftar mældust á Kröflusvæðinu, sá stærsti 1,4 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust SA af Grísatungufjöllum.

Hálendið

Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust á Hálendinu í vikunni, töluvert fleiri en í síðustu viku þegar um 30 skjálftar mældust. Rúmlega 20 skjálftar mældust undir Vatnajökli, sá stærsti 2 að stærð við Hamarinn, en þar mældust 3 skjálftar í vikunni. Fjórir smáskjálftar máldust í Bárðarbungu, tveir í Kverkfjöllum, einn í Grímsvötnum og sex í Öræfajökli. Tíu smáskjálftar mældust við Öskju og um tugur við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Einn skjálfti mældist í Hofsjökli 17. ágúst sem var 2,3 að stærð. Einn skjálfti mældist í Langjökli 1,3 að stærð og þrír við Þórisjökul, sá stærsti 1,8 að stærð.

Mýrdalsjökull

Sjö skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni og einn í Eyjafjallajökli. Átta skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 1,4 að stærð.

Jarðvakt