Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200831 - 20200906, vika 36

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 750 jarðskjálftar mældust með sjálfvirka SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni. Þetta eru umtalsvert færri skjálftar en í síðustu viku þegar um 2500 skjálftar mældust, munar þar mestu um jarðskjálftahrinurnar á Reykjanesi og úti fyrir Eyjafirði sem voru í fullum gangi þá. Jarðskjálftahrinan fyrir norðan stendur þó enn yfir og mældust tæplega 400 skjálftar þar í vikunni. Virknin á Reykjanesskaga heldur einnig áfram og mældust um 230 jarðskjálftar þar. Stærsti skjálfti vikunnar var M3,2 að stærð á Kolbeinseyjarhrygg, þann 3. september kl. 04:01. Hann var hluti af hrinu þar og fylgdu honum nokkrir aðrir um og undir M3,0 að stærð. Þann 2. september kl. 22:53, varð skjálfti af stærð M3,0 við Kleifarvatn og fannst hann á stórum hluta af Suðvesturhorni landsins. Um hádegisbil þann 3. september, kl. 12:39, mældist skjálfti af stærð M3,1 Í Kötluöskjunni. Tveir skjálftar mældust í Grímsvötnum og Öræfajökli í vikunni, en rólegt var við Heklu.

Suðurland

Sextán smáskjálftar mældust vítt og breitt um Suðurlandsbrotabeltið í vikunni, töluvert færri en í síðustu viku þegar um 40 skjálftar mældust. Rúmlega tíu smáskjálftar mældust á Hengilssvæðinu. Þann 6. september mældist einn skjálfti rétt norðan við Surtsey og var hann M2,5 að stærð. Enginn skjálfti mældist við Heklu.

Reykjanesskagi

Yfir 230 jarðskjálftar jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, miklu færri en í síðustu viku þegar 2100 jarðskjálftar mældust þar. Skjálftarnir dreifðust um skagann, en flestir voru við Vigdísarvelli og vestan við Kleifarvatn. Stærsti skjálftinn var um M3,0 að stærð, þann 2. september kl. 22:53 vestan við Kleifarvatn. Hann fannst víða á höfuðborgarsvæðinu. Einn jarðskjálfti mælist á Reykjaneshrygg, M1,6 að stærð, þann 6. september.

Norðurland

Tæplega 380 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Þetta eru nokkuð færri skjálftar en vikuna á undan þegar 500 skjálftar mældust. Flestir skjálftanna voru á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og í Eyjafjarðarál. Rúmlega 10 skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu, stærsti skjálftinn var tæplega M3,0 að stærð, þann 3. september kl. 04:14, rétt norðan við Grímsey. Skammvinn hrina varð á Kolbeinseyjahrygg með nokkrum skjálftum um og yfir M3,0 að stærð, sá stærsti mældist M3,2 að stærð þann 3. september kl. 04:01. Var hann jafnframt stærsti skjálftinn á svæðinu í vikunni. Fjórir smáskjálftar mældust við Bæjarfjall og einn í Kelduhverfi. Auk þess mældist einn skjálfti úti fyrir Skagafirði.

Hálendið

Rúmlega 70 jarðskjálftar mældust á Hálendinu í vikunni, nokkuð færri en í síðustu viku þegar um 110 skjálftar mældust. Tæplega 20 skjálftar mældust undir Vatnajökli, sá stærsti var 1,9 að stærð í Kverkjökli þann 3. september. Sex smáskjálftar mældust í Bárðarbungu og tveir í Öræfajökli. Tveir smáskjálftar mældust í Grímsvötnum, einn á Lokahrygg og annar í Hamrinum. Rúmlega 10 smáskjálftar mældust við Öskju og um 40 við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Einn jarðskjálfti mældist við Geitlandsjökul, M1,9 að stærð, þann 5. september.

Mýrdalsjökull

Átta skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti M3,1 að stærð þann 3. september kl. 12:39 og annar M2,7 kl. 12:27. Þrír smáskjálftar mældust í Torfajökli og enginn í Eyjafjallajökli.

Jarðvakt