Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200914 - 20200920, vika 38

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands staðsetti rúmlega 1500 jarðskjálfta í vikunni, sem eru töluvert fleiri skjálftar en í síðustu viku þegar þeir voru tæplega 830. Um eitt þúsund skjálftar hafa verið yfirfarnir handvirkt, en þeir fimm hundruð skjálftar sem eru óyfirfarnir eru smáskjálftar sem tilheyra jarðskjálftahrinum úti fyrir Norðurlandi. Mestu munaði milli vikna um það að virkni í jarðskjálftahrinunni fyrir norðan land jókst töluvert dagana 15. - 17. september. Þá færðist meginvirkni hrinunnar austur á Skjálfanda og voru flestir skjálftar þessa daga staðsettir um 20 km NV af Húsavík. Stærstu skjálftar vikunnar mældust þar þann 15. september og voru 4,6 og 4,0 að stærð og fundust þeir víða á Norðurlandi. Í vikunni mældust tveir skjálftar til viðbótar yfir 3 að stærð. Um hádegi 14. september mældist skjálfti af stærð 3,4 úti fyrir mynni Eyjafjarðar og aðfararnótt 15. september varð skjálfti af stærð 3,1 við Skaftárkatlana í vestanverðum Vatnajökli. Átta skjálftar mældust í, og í kringum Grímsvötn og tveir skjálftar í Heklu.

Suðurland

Tíu smáskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, sem er svipuð virkni og í síðustu viku þegar þeir voru 16. Á Hengilssvæðinu voru þrettán skjálftar staðsettir, sá stærsti 1,8 að stærð við Ölkelduháls. Tveir skjálftar að stærð 1,3 og 0,6 voru staðsettir í Heklu þann 20. september.

Reykjanesskagi

Um 100 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, nokkuð færri en í vikunni áður þegar tæplega 340 skjálftar mældust þar. Virknin var mest skammt vestan við Kleifarvatn, en þar mældust um 60 skjálftar og þar af stærsti skjálfti vikunnar á Reykjanesskaga sem var 2,3 að stærð. Aðrir skjálftar á Reykjanesskaga dreifðust nokkuð jafnt yfir svæðin við Reykjanestá, Grindavík og Fagradalsfjall, stakur skjálfti af stærð 1.8 mældist einnig í Brennisteinsfjöllum. Úti á Reykjaneshrygg mældust tveir skjálftar um 40-50 km SV af Reykjanesi.

Norðurland

Sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsetti tæplega 1300 jarðskjálfta á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni. Af þeim hafa um 800 verið yfirfarnir. Jarðskjálftahrina hefur verið í gangi úti fyrir Norðurlandi frá því 19. Júní en virkni hefur verið mest úti fyrir mynni Eyjafjarðar þangað til í síðustu viku en þá færðist mikill hluti virkninnar yfir á austurhluta Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins á Skjálfanda. Það var 15. september sem virknin jókst töluvert þar en þá urðu tveir skjálftar yfir 4 að stærð um 20 km NV af Húsavík. Kl. 14:52 varð skjálfti af stærð 4,6 og rúmum 2 klst síðar varð annar skjálfti af stærð 4,0. Fjöldi tilkynninga barst frá fólki víða af Norðurlandi sem varð vart við skjálftana. Mörg hundruð minni eftirskjálfta urðu á svæðinu dagana á eftir þessum skjálftum. Tæplega 1000 af þeim 1300 skjálftum sem staðsettir voru á Tjörnesbrotabeltinu urðu á milli Flateyjar og Húsavíkur. Virkni fyrir utan mynni Eyjafjarðar hélt áfram líkt og í sumar, en í vikunni mældust þar rúmlega 200 skjálftar sem eru nokkuð færri en í vikunni þar á undan þegar þeir voru um 340. Á nyrsta hluta Tjörnesbrotabeltsins, Grímseyjarbeltinu, voru um 35 skjálftar staðsettir í vikunni.

Lítil virkni var við Kröflu og Þeistareyki en þar mældist sitt hvor smáskjálftinn.

Hálendið

Um 50 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni og af þeim var stærsti skjálftinn 3,1 að stærð við Skaftárkatlana. Tíu skjálftar voru staðsettir í Bárðarbunguöskjunni í vikunni, sá stærsti 2,7 að stærð. Sjö djúpir skjálftar mældust SA við öskjuna í Bárðarbungu og einn smáskjálfi fyrir framan Dyngjujökul. Tólf skjálftar mældust á Lokahrygg, sem er svipað og í síðustu viku þegar þeir voru 15. Þrír skjálftar mældust í Grímsvötnum, fjórir skammt sunnan við Grímsfjall og einn smáskjálfti norðan við Grímsvötn. Tveir smáskjálftar voru staðsettir í Kverkfjöllum og aðrir tveir í Esjufjöllum.

Í Öskju voru 27 skjálftar í síðustu viku, fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru níu. Allir skjálftarnir voru undir 2 að stærð. Í kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl urðu tólf smáskjálftar í vikunni.

Mýrdalsjökull

Tveir skjálftar af stærð 1,3 og 0,3 mældust í Mýrdalsjökli, sem eru nokkuð færri en í vikunni þar áður. Tveir smáskjálftar mældust í Torfajökulsöskjunni.

Jarðvakt