Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200921 - 20200927, vika 39

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 1000 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, talsvert færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 1500. Búið er að yfirfara um 740 skjálfta. Mesta virknin var norðaustur af Grímsey en þar hófst jarðskjálftahrina 25. september sem stóð út vikuna. Stærstu skjálftar í hrinunni voru 4,3 að stærð og fundust víða á Norðurlandi. Stærsti skjálfti vikunnar var laust eftir miðnætti 27. september í Bárðarbunguöskjunni, 4,8 að stærð. Sjö jarðskjálftar voru staðsettir við Grímsfjall.

Suðurland

Rólegt var á Suðurlandsundirlendi. Tveir smáskjálftar mældust í Heklu.

Reykjanesskagi

Tæplega 150 skjálftar mældust á Reykjanesskaga, heldur fleiri en vikuna áður. Um helmingur var staðsettur við Sveifluháls og Núpshlíðarháls, vestan við Krýsuvík. Tveir skjálftar voru rétt yfir tveimur stigum aðrir minni. Frá því síðdegis á fimmtudegi 24, september og fram eftir kvöldi mældust um 20 jarðskjálftar norður af Sýrfelli, stærsti 2,6 að stærð, flestir aðrir um og innan við eitt stig. Aðrir skjálftar dreifðust frá Grindavík og austur fyrir Fagradalsfjall og voru allir innan við tvö stig. Einn skjálfti var við Brennisteinsfjöll.

Norðurland

Tæplega 700 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Af þeim hafa um 450 verið yfirfarnir. Þetta er nokkuð minni virkni en í síðustu viku þegar um 1300 skjálftar mældust. Mesta virknin var um 12 kílómetra norðaustur af Grímsey. Að morgni 25. september hófst þar skjálftahrina með skjálfta sem var 3,7 að stærð. Þrír skjálftar voru yfir fjórum stigum. Stærsti skjálftinn varð 26. september kl. 02:42, 4,3 að stærð. Annar sömu stærðar varð kl. 03:33 sömu nótt og sá þriðji 4,1 að stærð um mínútu fyrr. Tilkynningar bárust um að stærstu skjálftarnir hefðu fundist víða á Norðurlandi. Nokkrir skjálftar voru yfir þremur stigum, aðrir mun minni. Hrinan stóð úr vikuna og búið er að yfirfara um 230 skjálfta af um 400.
Dregið hefur úr virkninni milli Flateyjar og Húsavíkur. Þar mældust um 70 skjálftar í þessari viku miðað við um 1000 í þeirri síðustu. Stærsti skjálftinn var um tvö stig.
Um 140 skjálftar mældust úti fyrir mynni Eyjafirði heldur færri en vikuna á undan þegar þeir voru um 200. Allir skjálftarnir voru um og undir tveimur stigum. Nokkrir skjálftar voru í Öxarfirði, allir litlir. Rólegt var á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Um 60 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, litlu fleiri en vikuna á undan. Tæplega 20 voru staðsettir undir eða við Bárðarbunguöskjuna. Stærsti skjálftinn varð laust eftir miðnætti 27. september, 4,8 að stærð og var þetta jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Skjálftar, sömu stærðar, urðu á þessum stað í apríl og janúar á þessu ári. Aðrir skjálftar voru um eða undir tveimur stigum.
Rúmlega 30 skjálftar voru staðsettir um átta kílómetra suðaustur af Bárðarbungu, þar sem gjarnan mælast skjálftar á talsverðu dýpi. Mesta virknin var 23. og 27. september. Stærsti skjálftinn var 1,4 að stærð þann 24. september, flestir aðrir undir einu stigi.
Sjö skjálftar mældust við Grímsfjall, stærsti 1,9 að stærð. Einn smáskjálfti mældist í Öræfajökli.

Um 20 smáskjálftar mældust við Öskju og annað eins við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Í upphafi viku mældust fimm skjálftar í Lambahrauni, suður af Hagafelli, stærsti 1,6 að stærð og stakur skjálfti undir Vestari-Hagafellsjökli (í Langjökli) 1,0 að stærð.

Mýrdalsjökull

Fjórir smáskjálftar mældust í Mýrdalsjökli, tveir innan Kötluöskjunnar og tveir við Goðabungu. Tveir skjálftar voru á Torfajökulssvæðinu, báðir rúmt stig.

Jarðvakt