Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20200928 - 20201004, vika 40

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 570 jarðskjálftar mældust með sjálfvirka SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, talsvert færri en vikuna á undan þegar um 1000 jarðskjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar var 2,8 að stærð þann 30. september og mældist hann á Reykjaneshrygg. Engar stórar hrinur áttu sér stað en þó töluverð skjálftavirkni víða. Um tugur skjálfta mældist í Mýrdalsjökli í vikunni, tveir í Öræfajökli og tæpur tugur í Grímsvötnum. Einn skjálfti mældist í Heklu í vikunni.

Suðurland

Um 90 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni og var stærsti skjálftinn 2,1 að stærð þann 3. október kl. 00:40 í Langvíuhrauni, rétt suðvestan við Vatnafjöll. Um 15 skjálftar mældist á Hengillsvæðinu. Um 35 skjálftar mældust í smáhrinu sem stendur yfir um 11 km austan við Selfoss. Stærsti skjálfti í henni var 2,0 að stærð. Skjálfti af stærð 1,5 mældist rétt norðan við Hveragerði þann 4. október kl. 18:39. Skjálftinn fannst í Hveragerði. Einn skjálfti mældist í Heklu.

Reykjanesskagi

Rúmlega 140 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í liðinni viku. Stærsti skjálftinn á svæðinu var 2,2 að stærð þann 29. september kl. 22:23, við suðvesturhluta Kleifarvatns. Skjálftarnir dreifðust vel um Reykjanesskagann og engar langvinnar hrinur stóðu yfir þótt litlar þyrpingar hafi mælst hér og þar. Um 15 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg í vikunni, og var sá stærsti 2,8 að stærð, um 70 km frá landi þann 30. september. Þetta var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar.

Norðurland

Um 220 jarðskjálftar mældust á Norðurlandi í vikunni. Flestir skjálftanna voru á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og í Eyjafjarðarál. Stærsti skjálftinn var 2,3 að stærð þann 3. október kl. 07:29, um 11 km. norðvestur af Gjögurtá. Um 30 skjálftar mældust á Grímseyjarmisgenginu. Þrír skjálftar mældust í Kröflu og þrír við Þeistareyki.

Hálendið

Um 100 skjálftar mældust á hálendinu í liðinni viku. Norðan Vatnajökuls mældust rúmlega 30 skjálftar, allir undir 2 að stærð. Virknin var bundin við nágrenni Öskju, Herðubreiðar og Herðubreiðartagla. Undir Vatnajökli mældust tæplega 30 skjálftar. Fjórir djúpir skjálftar mældust austan við Bárðarbungu en þeir voru fleiri sem erfitt var að staðsetja. Einn skjálfti mældist í Bárðarbungu og var hann 2,1 að stærð. Um tugur skjálfta mældist á Lokahrygg. Tæpur tugur skjálfta mældist í Grímsvötnum og tveir í Öræfajökli.

Tæplega 30 skjálftar mældust sunnan við Langjökul í tveimur smáhrinum, önnur rétt suðvestan við Sandvatn og hin sunnan við Hagavatn. Einn skjálfti mældist í vestanverðum Langjökli og einn í Kjarardal. Fimm skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Mýrdalsjökull

Tæplega 10 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í liðinni viku og var sá stærsti 1,5 að stærð. Flestir skjálftanna mældust innan Kötluöskjunnar en tveir mældust við Tungnakvíslarjökul.

Jarðvakt