| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20201005 - 20201011, vika 41

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Um 1200 jarðskjálftar mældust með sjálfvirka SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, rúmlega helmingi fleiri en í síðustu viku þegar um 570 jarðskjálftar mældust. Búið er að yfirfara rúmlega 950 skjálfta. Munar þar mestu um að hrinan sem hefur verið í gangi með hléum á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og Eyjafjarðarál síðan í júní tók sig upp aftur þann 5. október, en um 650 jarðskjálftar mældust þar í vikunni, þar af sjö skjálftar stærri en 3 að stærð. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,1 að stærð kl 05:47 þann 6. október, en 6 aðrir skjálftar stærri en 3 mældust í hrinunni sama dag. Stærstu skjálftarnir fundust víða á Norðurlandi. Meiri virkni var á flestum svæðum samanborið við síðustu viku. Tveir skjálftar mældust í Heklu, fimm við Grímsvötn og tveir í Bárðarbungu.
Suðurland
Tæplega 120 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni. Flestir skjálftarnir, eða 86, voru staðsettir í hrinu rúma 11 km austan við Selfoss 5-8. október, sem hófst í síðustu viku, 29. september. Stærsti skjálfti hrinunnar var 2,1 að stærð þann 5. október. Aðrir skjálftar voru staðsettir vítt og breitt á beltinu. Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu, af þeim mældust um 20 við Nesjavelli, sá stærsti 1,8 að stærð. Tveir skjálftar mældust í Heklu, sá stærri 1,3 að stærð.
Reykjanesskagi
Rúmlega 200 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í vikunni, mun fleiri en í síðustu viku þegar um 140 skjálftar voru staðsettir þar. Flestir skjálftarnir mældust NA af Grindavík og við Vigdísarvelli, en aðrir dreifðust um skagann. Stærsti skjálftinn var 2,0 að stærð rétt NA við Grindavík þann 6. október kl 20:15. Tíu skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,0 að stærð.
Norðurland
Rúmlega 670 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í vikunni, miklu fleiri en í síðustu viku þegar um 220 skjálftar mældust. Munar þar mestu um að jarðskjálftahrinan á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu sem hófst 19. júní tók sig upp aftur þann 5. október. Langflestir skjálftarnir eða rúmlega 480 mældust vestast á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu þar sem virkni hefur verið einna mest í sumar. Stærsti skjálftinn var 4,1 að stærð kl 05:47 þann 6. október, en 6 aðrir skjálftar stærri en 3 mældust í hrinunni sama dag. Stærstu skjálftarnir fundust víða á Norðurlandi. Tæplega 30 jarðskjálftar mældust í þyrpingu austar á misgenginu, um 7 km SA af Flatey, sá stærsti 1,5 að stærð. Töluverður fjöldi skjálfta mældist einnig í Eyjafjarðarál, eða rúmlega 130 skjálftar. Sá stærsti mældist 2,6 að stærð. Tæplega 20 jarðskálftar mældust á Grímseyjarbeltinu, sá stærsti 1,5 að stærð.
Fimm smáskjálftar mældust á Kröflusvæðinu og tveir við Bæjarfjall.
Hálendið
Rúmlega 50 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni. Fimm skjálftar mældust við Grímsvötn, sá stærsti 1,3 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust við Bárðarbungu. Tæplega 30 jarðskjálftar mældust á djúpa svæðinu austan við Bárðarbungu og 15 skjálftar mældust í bergganginum. Fjórir skjálftar mældust við Hamarinn, einn við Tungnafellsjökul og einn við Vonarskarð. Sjö smáskjálftar mældust við Öræfajökul.
Rúmlega tugur skjálfta mældist við Öskju, sá stærsti 2,0 að stærð þann 7. október. Um 20 smáskjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Einn skjálfti 1,5 að stærð mældist í Hofsjökli þann 11. október og 13 skjálftar mældust suður af Langjökli í smá hrinu 10 og 11. október. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð.
Mýrdalsjökull
Tæplega 30 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti 1,5 að stærð. Einn smáskjálfti mældist í Eyjafjallajökli. Fjórir skjálftar mældust á Torfajökulsvæðinu, sá stærsti 2,6 að stærð 6. október.
Jarðvakt