Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20201026 - 20201101, vika 44

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Suðurland

Um 30 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandi í vikunni, þeir voru ýmist dreifðir um Hengilinn og á suðurlandsundirlendinu. Alls mældust sjö skjálftar í Henglinum, sá stærsti 1,5 að stærð við Nesjavelli þann 26. október. Fimm smáskjálftar mældust sunnan við Skarðsfjall í Árnesi og sex við Heklu, sá stærsti 1,2 að stærð þann 30. október.

Reykjanesskagi

Tæplega 270 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í liðinni viku, töluvert færri en vikuna á undan þegar um 3300 skjálftar mældust í jarðskjálftahrinu sem hófst 20. október. Verulega dró úr virkninni eftir 26. október. Jarðskjálftarnir dreifðust aðallega frá Grindavík austur að Kleifarvatni og stærsti skjálftinn mældist 2,3 að stærð þann 28. október kl. 05:11 í Fagradalsfjalli. Fjórir smáskjálftar voru staðsettir suðvestan við Bláfjöll.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi í vikunni mældust rúmlega 110 jarðskjálftar, nokkuð færri en vikuna á undan þegar að þeir voru um 140 talsins. Sjö skjálftar mældust austan Grímseyjar suðvestur í Öxarfirði, á Grímseyjarbeltinu. Flestir skjálftarnir eða um 80 mældist vestast á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu um 20 km ANA af Siglufirði, sá stærsti 3,0 að stærð þann 31. október kl. 04:55. Við Hrísey mældust 13 jarðskjálftar, allir undir 1,5 að stærð. Í Skjálfanda mældust 11 skjálftar, þar af einn 0,8 að stærð um 2 km NV af Húsavík þann 31. október. Fjórir smáskjálftar mældust við Þeistareyki og sjö við Kröflu.

Hálendið

Um 40 jarðskjálftar mældust við Herðubreið, sá stærsti 1.7 þann 1. október og voru flestir staðsettir norðaustanmegin í fjallinu. 18 skjálftar mældust við Öskju. Tveir smáskjálftar urðu norðan við Tungnafellsjökul. Þá mældist stakur skjálfti, 2,0 að stærð í Hofsjökli þann 28. október. Í Langjökli mældust þrír skjálftar, stærstur var 2,0 að stærð í Geitlandsjökli. Jarðskjálfti af stærð 1,7 mældist um 20 km NA af Sultartangalóni. Í Vatnajökli mældust um 30 jarðskjálftar sem var svipaður fjöldi og vikuna á undan. Tveir smáskjálftar í Bárðarbunguöskjunni, þrír í ganginum þar sem hann beygir til norðurs og fjórir undir Dyngjujökli. Stakur skjálfti mældist í Köldukvíslarjökull. Við Eystri Skaftárketilinn mældust þrír skjálftar, allir undir 1,5 að stærð og milli Hamarsins og vestari Skaftárketils mældust einnig þrír smáskjálftar. Sjö jarðskjálftar mældust við Grímsvötn í vikunni, fleiri en vikuna á undna þegar að þeir voru tveir, stærsti skjálftinn í liðinni viku varð 1,6 þann 27.október. Sitthvor smáskjálftinn mældust í Öræfajökli og annar norðan við Grænafjall. Þá mældist stakur skjálfti, 2,0 að stærð um 120 km SA af Höfn þann 26. október.

Mýrdalsjökull

Níu skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, sá stærsti 1,3 að stærð við austur enda öskjunnar. Sjö skjálftar mældust á Torfajökulsvæðinu, sá stærsti 1,2 að stærð 31. október í Hrafntinnuskeri.

Jarðvakt