Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20201109 - 20201115, vika 46

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 680 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun fleiri en vikuna á undan. Mesta virknin var á Reykjanesskaganum. Jarðskjálftahrina hófst um miðja viku vestur af Fagradalsfjalli og í vikulok við Húsmúla á Hellisheiði. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,7 við Húsmúla og fannst hann frá Eyrarbakka til Höfuðborgarsvæðisins.

Suðurland

Upp úr kl. 16 þann 14. nóvember mældust nokkrir smáskjálftar skammt norður af Hellisheiðarvirkjun (við Húsmúla á Hellisheiði). Um kl. 18:30 jókst virknin og kl. 18:42 mældist skjálfti, 2,8 að stærð. Kl. 19:06:30 mældist annar, 3,7 að stærð og enn annar skömmu síðar, 3,3 að stærð. Tilkynningar bárust frá Hveragerði, Eyrarbakka, Selfossi og víða af Höfuðborgarsvæðinu um að stærsti skjálftinn hefði fundist. Heldur dró úr virkninni eftir því sem leið á kvöldið og um miðnætti höfðu um 100 skjálftar mælst á þessu svæði. Ástæða þessarar virkni er talin tengjast jarðhitavinnslu á svæðinu.
Stakur skjálfti mældist við Heklu, 10. nóvember kl. 20:50, 1,5 að stærð. Nokkrir litlir skjálftar voru staðsettir á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Um 300 jarðskjálftar mældust í vikunni, mun fleiri en í fyrri viku þegar þeir voru um 150. Mesta virknin var um 5km vestan við Fagradalsfjall en þar hófst jarðskjálftahrina um miðja nótt 11. nóvember sem stóð óslitið fram eftir degi en þá fór heldur að draga úr henni. Skjálftar mældust þó af og til út vikuna. Rúmlega 150 skjálftar voru staðsettir á þessu svæði og var sá stærsti 2,4 að stærð þann 11. nóvember kl. 05:52. Flestir aðrir voru um og innan við eitt stig. Hátt í 40 skjálftar mældust skammt vestan við Þorbjörn, stærsti 2,7 að stærð þann 13. nóvember kl. 00:25. Nokkrar tilkynningar bárust um að hann hefði fundist í Grindavík. Aðrir skjálftar dreifðust vestar og austar á skaganum, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust úti fyrir Reykjanestá

Norðurland

Rúmlega 100 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi, litlu færri en í fyrri viku. Um 30 í Öxarfirði, 40 út af Gjögurtá og 10 á Skjálfanda. Allir skjálftarnir voru um og innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðunum við Þeistareyki og Kröflu.

Hálendið

Tæplega 50 jarðskjálftar voru staðsettir í Vatnajökli, svipaður fjöldi og í fyrri viku. Á annan tug smáskjálfta mældist við Bárðarbungu og annað eins í djúpa svæðinu suðaustur af Bárðarbungu. Um tugur var staðsettur á Lokahrygg, stærsti rúm tvö stig. Þrír skjálftar, stærsti tæp tvö stig, voru staðsettir við Grímsfjall.
Um 20 jarðskjálftar voru við Öskju og rúmlega 30 við Herðubreið, allir um og innan við tvö stig.
Tveir skjálftar voru við Skjaldbreið, sá stærri 2,3 að stærð.

Mýrdalsjökull

Tæplega 20 skjálftar, heldur fleiri en vikuna á undan, mældust í Kötlu, nær allir innan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var 2,3 að stærð í austanverðri öskjunni.

Jarðvakt