Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20201123 - 20201129, vika 48

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 450 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun færri en vikuna á undan þegar um 630 jarðskjálftar mældust. Mjög hvasst var á landinu seinnipart vikunnar sem hafði áhrif fjölda mældra smáskjálfta. Enginn skjálfti mældist yfir 3 að stærð í vikunni, en stærsti skjálfti vikunnar var 2,8 að stærð á Torfajökulssvæðinu þann 25. nóvember. Töluverð virkni er enn á Reykjanesi og úti fyrir Norðurlandi, en eins skjálfta varð vart á Siglufirði 25. nóvember sem var 2,4 að stærð. Þrír smáskjálftar mældust við Grímsvötn og tveir við Heklu.

Suðurland

Rúmlega tugur jarðskjálfta mældist vítt og breitt á Suðurlandsbrotabeltinu í vikunni, sá stærsti 2 að stærð en aðrir mun minni. Ellefu skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, mun færri en í vikunni á undan. Stærsti skjálftinn var 1,6 að stærð. Tveir smáskjálftar mældust í og við Heklu, báðir undir einum að stærð.

Reykjanesskagi

Rúmlega 200 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, heldur færri en í síðustu viku þegar um 240 jarðskjálftar mældust. Stærsti skjálftinn var 2,4 að stærð 25. nóvember kl 22:56 við Núpshlíðarháls. Mesta virknin var NA af Grindavík, eða tæplega 100 skjálftar. Langflestir komu í hrinu 24. nóvember, stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð. Aðrir skjálftar voru dreifðir um skagann. Tugur skjálfta mældist á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,4 að stærð.

Norðurland

Um 90 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, mun færri en í síðustu viku þegar um 160 skjálftar mældust. Um 40 jarðskjálftar mældust í Eyjarfjarðarál, sá stærsti 2,4 að stærð kl 00:44 þann 25. nóvember. Ein tilkynning barst um að skjálftinn hafi fundist á Siglufirði. Tæplega 20 jarðskjálftar mældust um 8 km SA af Flatey, sá stærsti 2,1 að stærð. Rúmlega 20 skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu, af þeim voru um 15 í Öxarfirði. Einn skjálfti mældist NV af Hrísey.

Sautján skjálftar mældust í hrinu við Bæjarfjall, flestir eða 15 þann 23. nóvember. Stærsti skjálftinn var 1,7 að stærð. Þrír smáskjálftar mældust við Kröflu.

Hálendið

Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni, færri en vikuna á undan. Einn smáskjálfti mældist í Bárðarbungu, þrír við Grímsvötn, átta við Öræfajökul, einn í Kverkfjöllum, einn í Esjufjöllum, einn í Þórarhyrnu og tveir við Hamarinn, sá stærri var 2,1 að stærð. Einn skjálfti mældist við hvorn Skaftárketil. Þrír djúpir skjálftar, allir undir einum að stærð, mældust SA við Bárðarbungu á svæði þar sem oft mælast djúpir skjálftar.

Fimmtán skjálftar mældust við Öskju í vikunni, sá stærsti 1,9 að stærð. Tæplega 30 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, sá stærsti 1,7 að stærð.

Tveir skjálftar mældust í Hofsjökli í vikunni, báðir um 1,7 að stærð og einn við Skjaldbreiður.

Mýrdalsjökull

Um 20 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í vikunni, svipað og vikuna á undan. Stærsti skjálftinn var 1,9 að stærð í Kötluöskjunni en sjö skjálftar mældust innan öskjunnar. Þrettán smáskjálftar mældust undir Kötlujökli.

Fjórir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 2,8 að stærð þann 25. nóvember, en hann var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Hinir skjálftarnir voru allir undir einum að stærð.

Jarðvakt