Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20201214 - 20201220, vika 51

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 530 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, nokkuð færri en vikuna á undan þegar um 600 jarðskjálftar mældust. Yfir helmingur skjálftanna mældust á Reykjanesskaga, þar sem stæðsti skjálfti vikunnar mældist 4,1 að stærð þann 16. desember NA af Reykjanestá og fannst hann í nágrenninu. Dregið hefur úr hrinunni við minni Eyjafjarðar en um 60 jarðskjálftar mældust í liðinni viku, samanborið við um 200 skjálftar vikuna á undan. Sautján jarðskjálftar mældust í Kötlu, níu vestan við Langjökul og um 25 við Herðubreið. Fjórir smáskjálftar mældust í Grímsvötnum og þrír við Heklu.

Suðurland

Tæplega þrjátíu jarðskjálftar mældust á suðurlandi í vikunni, svipaður fjöldi og vikuna á undan. Átta skjálftar mældust í Henglinum, sá stærsti 2,2 að stærð þann 17. desember rétt vestan við Ölkelduháls. Þrír smáskjálftar, allir undir 1,0 að stærð mældust sunnan við Heklu. Aðrir voru á víð og dreif um Suðurlandsundirlendið.

Reykjanesskagi

Um 340 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, nokkuð fleiri en vikuna á undan þegar að um 250 skjálftar mældust. Þann 16. desember mældust um 150 jarðskjálftar í hrinu um 7 km NA af Reykjanestá, stærsti skjálftinn mældist 4,1 að stærð þann 16. desember kl. 04:33 og fannst á Reykjanesskaga og víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Eins var nokkur virkni við Lágafell og Höskuldarvelli en önnur virkni var dreifð milli Þorbjörns og Fagradalsfjalls. Um þrjátíu skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, flestir voru staðsettir þann 19. des rétt VSV við Reykjanestá.

Norðurland

Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust á norðurlandi í vikunni og voru flestir staðsettir á Tjörnesbrotabeltinu en virknin var meiri vikuna á undan þegar að rúmlega 200 skjálftar mældust. Stærsti skjálftinn var 2,0 að stærð að morgni 15. desember í Eyjafjarðarál en um 30 jarðskjálftar mældust þar á svæðinu, mun færri en vikuna á undan þegar að þeir voru um 170 talsins. 26 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, stærsti var 2,0 að stærð þann 19. desember kl. 15:08. Stakir skjálftar mældust svo rétt NA við Hrísey 1,9 að stærð, NA við Grímsey og um 300 km N á Kolbeinseyjarhrygg. Þrír skjálftar mældust við Kröflu, sá stærsti 1,2 að stærð og stakur smáskjálfti var staðsettur við Þeistareyki.

Hálendið

25 jarðskjálftar mældust á víð og dreif um Herðubreið og Herðubreiðartögl, stærsti var 1,5 að stærð og sex smáskjálftar mældust við Öskju.

Átján skjálftar mældust í Vatnajökli, mun færri en vikuna á undan þegar að þeir voru um 70. Þrír smáskjálftar í Bárðarbungu, einn í gagninum þar sem hann beygir til norðurs og annar í Kverkhnjúkum. Tveir skjálftar mældust norðan við Eystri Skaftárketil, sá stærri 1,9 að stærð þann 20. desember og annar smáskjálfti vestan við vestri ketilinn. Fjórir skjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti 1,1 að stærð þann 17.desember kl. 21:32. Stakur smáskjálfti mældist NV við Morsárjökul og tveir í Breiðamerkurjökli, sá stærri 1,7 að stærð þann 14. desember. Enginn skjálfti mældist í Öræfajökli.

Níu skjálftar mældust vestan við Langjökull dagana 19. og 20. desember, sá stærsti 2,2, að stærð. Stakur skjálfti vestan við Sandvatn, 1,8 að stærð þann 17. desember.

Mýrdalsjökull

Sautján jarðskjálftar mældust í Kötluöskjunni í vikunni, svipað og í fyrri viku. Stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð þann 18. desember kl. 05:58 í austanverðri öskjunni.

Sex skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 1,5 að stærð í Hrafntinnuskeri þann 18. desember kl. 19:23.

Jarðvakt