| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20201221 - 20201227, vika 52

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 330 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, nokkuð færri en í vikunni á undan þegar um 530 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,9 að stærð í Bárðarbungu þann 21. Desember. Um 140 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni sem er nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 340. Stærsti skjálfti vikunnar þar var 2,3 að stærð skammt norðan við Grindavík. Fjórir skjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti 1,7 að stærð, og einn smáskjálfti í Heklu.
Suðurland
Á suðurlandsbrotabeltinu mældust 16 smáskjálftar víkunni, allir undir 1,5 að stærð. Lítil virkni var á Hengilssvæðinu en þar mældust aðeins tveir smáskjálftar víkunni. Einn smáskjálfti af stærð 0,4 mældist í Heklu og annar af stærð 0,6 í Vatnafjöllum.
Reykjanesskagi
Um 140 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni sem er nokkuð færri en í síðustu viku þegar þeir voru um 340. Stærsti skjálfti vikunnar þar var 2,3 að stærð skammt norðan við Grindavík. Annars dreifðist virknin þar frá Reykjanestá í vestri að Kleifarvatni í austri, en virknin var meiri á austurhluta þess svæðis. Tveir skjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg, báðir 1,6 að stærð, um 45 km SV af Reykjanestá.
Norðurland
Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni sem er svipaður fjöldi og í vikunni á undan. Stærsti skjálfti vikunnar þar var 2,4 að stærð í Eyjafjarðarál þann 21. desember. Flestir þessarra skjálfta voru staðsettir í Eyjafjarðarál eða á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu en lítil virkni var á Grímseyjarbeltinu. Þrír smáskjálftar mældust á Kröflusvæðinu og fjórir við Þeistareyki.
Hálendið
Ellefu skjálftar voru staðsettir í Öskju, sá stærsti 1,8 að stærð. Rúmlega 20 smáskjálftar mældust á svæðinu við Herðubreið og Herðubreiðartögl, þeir voru allir undir 1,5 að stærð. Stakur smáskjálfti mældist V við Herðubreiðarfjöll.
Hátt í 40 jarðskjálftar mældust í Vatnajökli í vikunni, aðeins fleiri en í síðustu viku þegar þeir voru 18. Stærsti skjálftinn þar mældist í Bárðarbunguöskjunni þann 21. Desember og var 3,9 að stærð, sem var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar á landinu. Þeim skjálfta fylgdi annar skjálfti af stærð 2,8, en alls mældust 12 jarðskjálftar í Bárðarbunguöskjunni, sex djúpir smáskjálftar A við öskjuna og einn í bergganginum undir Dyngjujökli í vikunni. Á Lokahrygg, A við Hamarinn, voru sjö jarðskjálftar staðsettir í vikunni. Þeir stærstu 2,7 og 2,4 að stærð. Stakur smáskjálfti mældist SA við Hamarinn. Fjórir skjálftar mældust í Grímsvötnum, sá stærsti 1,7 að stærð þann 25. Desember. Þrír smáskjálftar mældust við Þórðarhyrnu og tveir í Öræfajökli.
Þrír skjálftar mældust í SV-verðum Langjökli, sá stærsti 2,1 að stærð, og stakur skjálfti mældist SA við jökulinn. Stakur skjálfti af stærð 1,4 mældist í Hofsjökli þann 22. Desember og annar stakur skjálfti af stærð 1,3 mældist innarlega í Bleiksmýrardal, um 50 km NA af Hofsjökli.
Mýrdalsjökull
Sextán jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni sem er svipaður fjöldi og í vikunni á undan. Stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð þann 27. Desember og fylgdu honum nokkrir smáskjálftar. Lítil virkni var á Torfajökulssvæðinu en þar mældust tveir smáskjálftar.
Jarðvakt