| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20210614 - 20210620, vika 24
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust í liðinni viku með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands, sem er heldur meira en í síðustu viku þegar um 380 skjálftar mældust. Munar þar mestu um jarðskjálftahirnu í og við Högnhöfða í Biskupstungum, frá 16-18. júní, þar sem tæplega 140 jarðskjálftar mældust í hrinunni og sá stærsti var M2,5 að stærð. Stærsti skjálfti vikunnar mældist M2,7 í Bárðarbunguöskjunni þann 15. júní kl. 19:47. Nokkur virkni mældist úti fyrir Norðurlandi, þar af um 30 skjálftar í Öxarfirði og á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Nokkrir skjálftar mældust í Brennisteinsfjöllum, sá stærsti M2,1 og um 10 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli. Einn smáskjálfti mældist í Heklu og annar rétt vestan við Langjökul. Einnig mældist einn skjálfti í Borgarfirði, skammt frá Langavatni og mældist hann M1,9 að stærð.
Suðurland
Rúmlega 30 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í liðinni viku svipaður fjöldi og í fyrri viku. Mældust þeir allir undir M2,0 að stærð. Virknin dreifðist nokkuð um Suðurlandsundirlendið og nokkur virkni var í Henglinum. Stærsti skjálfti vikunnar á suðurlandi mældist M2,0 að stærð á Mosfellsheiði rétt norðan við Nesjavallaveg við Eiturhól. Einn smáskjálfti mældist í Heklu.
Reykjanesskagi
Tæplega 70 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í liðinni viku, töluvert færri en í síðustu þegar um 120 skjálftar. Stærsti skjálftinn mældist M2,1 í Brennisteinsfjöllum þann 14. júní kl. 19:59 og að kvöldi 20. júní mældist skjálfti af stærð M1,8 við austurströnd Kleifarvatns. Mesta virknin var milli Litla-Hrúts og Keilis en um 14 skjálftar mældust þar, rúmlega helmingi færri en í fyrri viku. Nokkur virkni var við Sundhnjúkagíga norðan við Grindavík en alls mældust um 10 skjálftar þar. Um 15 skjálftar mældust við Reykjanestá.
Einn skjálfti mældist á Reykjaneshrygg, M1,7 að stærð um 27 km SV af Reykjanestá.
Norðurland
Á Norðurlandi mældust tæplega 110 skjálftar þarf af voru um 8 þeirra á landi. Þrír skjálftar mældust við Kröflu allir undir M1,0 að stærð. Þá mældist 1 skjálfti við Bæjarfjall. Um 30 skjálftar mældust í Öxarfirði, stærsti skjálftinn M1,8 þann 14. júní. Rúmlega 10 skjálftar mældust á Grímseyjarmisgenginu. Nokkur virkni var á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu en um rúmlega 30 skjálftar mældust þar í vikunni, þó einkum úti fyrir Eyjafirði, sá stærsti varð þann 19. júní og mældist M1,8 að stærð.
Hálendið
Rúmlega 270 skjálftar mældust á hálendinu í liðinni viku, töluvert fleiri en í fyrri viku þegar um 115 skjálftar mældust og munar þar mestu um jarðskjálftahrinu við Högnhöfða í Biskupstungum. Um 85 skjálftar mældust í Vatnajökli, nokkuð fleiri en í síðustu viku þegar um 65 skjálftar mældust. Þar af voru um 30 jarðskjálftar í Bárðarbungu og einnig stærsti skjálftinn sem varð þann 15. júní kl. 19:47 og mældist M2,7 að stærð. Rúmlega 10 djúpir skjálftar mældust á djúpa svæðinu austan við Bárðarbungu. Við Grímsvötn mældust 8 skjálftar og sá stærsti mældist á Grímsfjalli og var hann M1,8 að stærð.Tveir skjálftar mældust við Eystri Skaftárketlinn, sá stærri mældist M1,2 að stærð og einn smáskjálfti mældist við Hamarinn. Tíu smá skjálftar mældust í Öræfajökli og þrír í Skaftafellsfjöllum. Tveir smáskjálftar mældust í Kverkfjöllum og þrír austan í Dyngjujökli.
Norðan Vatnajökuls mældust rúmlega 50 skjálftar, allir undir 2 að stærð. Við Öskju mældust um 15 skjálftar og um 35 í nágrenni Herðubreiðar og Herðubreiðartagla.
Rúmlega 130 skjálftar mældust í og við Högnhöfða í Biskupstungum í jarðskjálftahrinu sem hófst síðdegis þann 16. júní. Sá stærsti mældist M2,5 að stærð þann 16. júní kl. 20:16.
Mýrdalsjökull
Rúmlega 10 skjáfltar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, helmingi fleiri en í fyrri viku þegar tæplega 5 skjálftar mældsut. Stærsti skjálftinn mældist M1,9 að stærð þann 17. júní í vestanverðri Kötluöskjunni. Nokkrir skjálftar mældust í Kötlujökli. Einn smáskjálfti mældist á Torfajökulssvæðinu.
Jarðvakt